Erlent

Handtóku 53 fyrir samkynja hjónabönd

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hinsegin fólk hefur mótmælt nígerískum lögum.
Hinsegin fólk hefur mótmælt nígerískum lögum. Nordicphotos/AFP
Saksóknarar í Nígeríu hafa ákært 53 fyrir að skipuleggja að fagna samkynja hjónavígslum. Hin ákærðu neita sök og segja lögfræðingar þeirra að skjólstæðingarnir séu beittir misrétti.

Sambönd samkynja einstaklinga eru ólögleg í Nígeríu og er refsing við þeim allt að fjórtán ára fangelsisdómur.

Hin ákærðu mættu fyrir dómstól í Chediya-Zaria í gær og kváðust saklaus en formlega eru þau ákærð fyrir að brjóta lög um samsæri og að tilheyra ólöglegu samfélagi.

Yunusa Umar, einn verjenda, sagði hin ákærðu vera nema. Þau hafi verið hneppt í ólöglegt gæsluvarðhald í rúman sólarhring.

Bann við samkynja samböndum var lögfest árið 2014. Human Rights Watch greinir frá því að lögregla og almennir borgarar nýti bannið sem afsökun fyrir því að ganga í skrokk á hinsegin fólki og misþyrma því. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×