Erlent

Árásarmaðurinn við Notre Dame nafngreindur

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaðir lögreglumenn við Notre Dame eftir árásina.
Vopnaðir lögreglumenn við Notre Dame eftir árásina. Vísir/EPA
Franska lögreglan hefur birt upplýsingar um manninn sem réðist á lögreglumann með hamri fyrir utan Notre Dame-kirkjuna í París í gær. Árásarmaðurinn er fertugur alsírskur blaðamaður og doktorsnemi samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Fréttaritari BBC í París segir að árásarmaðurinn skeri sig nokkuð frá öðrum einförum sem hafa framið sambærilegar árásir.

Maðurinn kom til Frakklands fyrir þremur árum en þar áður hafði hann unnið í Svíþjóð um tíma. Hann hafði unnið að doktorsgráðu í samskiptum í austurhluta Frakklands en bjó í Cergy, úthverfi Parísar. Franskir fjölmiðlar hafa eftir fyrrverandi leiðbeinanda hans við Lorraine-háskóla í Metz að að maðurinn hafi verið öflugur talsmaður vestrænna gilda.

Árásarmaðurinn er sagður hafa hrópað: „Þetta er fyrir Sýrland“ þegar hann lét til skarar skríða. Myndband af honum þar sem hann lýsir yfir hollustu við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams fannst í íbúð hans. Hann heitir Farid Ikken.

Lögreglumaðurinn sem hann réðist á er sagður lítið slasaður. Sjálfur liggur árásarmaðurinn særður á sjúkrahúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×