Erlent

Segir Kínverja verða að standa undir aukinni ábyrgð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Nordicphotos/AFP
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir ekki koma til greina að ganga til samninga við Kína vegna tilkalls Kína til manngerða eyja í Suður-Kínahafi. Þá segir hann jafnframt að Kínverjar verði að standa undir aukinni ábyrgð sinni. Guardian greinir frá.

Bandaríkin leggjast gegn auknum umsvifum Kínverja á Suður-Kínahafi, þar sem uppbygging þeirra á svokölluðum manngerðum eyjum sé ólögleg.

Tillerson segir að ekkert pláss sé til viðræðna um þessar eyjur og að Kínverjar beri aukna ábyrgð í alþjóðakerfinu.

„Við leggjumst gegn uppbyggingu Kínverja á þessum eyjum og hervæðingu þessa hluta heimsins á alþjóðlegu hafsvæði.

Kína er mikilvægur efnahagslegur sem og hernaðarlegur gerandi í alþjóðakerfinu. Við viljum eiga í uppbyggilegum samskiptum við Kínverja en getum ekki leyft þeim að nýta sér efnahagslegan mátt sinn til þess að koma sér undan mikilvægum málum. Þeir verða að viðurkenna að auknum mætti fylgir aukin ábyrgð.“

Í því samhengi segir Tillerson ljóst að Kínverjar verði að rísa upp og beita sér með fullnægjandi hætti í máli Norður-Kóreu og beita sér gegn því að yfirvöld þar í landi haldi áfram að þróa kjarnorkueldflaugar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×