Eftir að Ryan Lizza, blaðamaður New Yorker, tísti um að Scaramucci snæddi kvöldverð með Trump forseta, forsetafrúnni og tveimur núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Fox News-sjónvarpsstöðvarinnar á miðvikudagskvöld hringdi samskiptastjórinn í blaðamanninn og krafðist þess að fá að vita hver heimildamaður hans væri.
Lizza greindi frá símtalinu í grein á New Yorker í gær en Scaramucci tók aldrei fram að blaðamaðurinn mætti ekki hafa neitt eftir sér.
Hótaði að reka allt starfslið sitt
Svo virðist sem að Scaramucci hafi verið sannfærður um að Reince Priebus, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hefði lekið upplýsingum um kvöldverðinn en þeir eru sagðir hafa eldað grátt silfur saman. Priebus er meðal annars sagður hafa komið í veg fyrir að Scaramucci væri skipaður í embætti í ríkisstjórn Trump í janúar.
Hótaði Scaramucci meðal annars að reka allt starfslið samskiptasviðs Hvíta hússins ef Lizza gæfi ekki upp heimildamann sinn. Trump og Scaramucci hafa barist hatrammlega gegn þeim sem leka upplýsingum innan úr ríkisstjórninni.
„Reince Priebus, ef þú vilt leka einhverju, hann verður beðinn um að segja af sér mjög bráðlega,“ sagði Scaramucci við Lizza meðal annars.
„Sjáum til hvort ég geti ekki reðurteppt þetta fólk“
Scaramucci var þó hvergi nærri runnin reiðin. Gaf hann í skyn að Priebus hefði lekið upplýsingum um kvöldverðinn vegna þess að honum hefði ekki verið boðið.
„Reince er andskotans ofsóknaróður geðsjúklingur,“ sagði Scaramucci áður en hann byrjaði að herma eftir starfsmannastjóranum.
„Leyfðu mér að leka þessu fjandans máli og sjáum til hvort ég geti ekki reðurteppt (e. cock-block) þetta fólk eins og ég reðurteppti Scaramucci í sex mánuði,“ sagði Scaramucci þegar hann hermdi eftir Priebus.

Scaramucci var einnig argur Priebus vegna þess að hann taldi hann standa að baki þess að greint hefði verið frá fjárhagsupplýsingum um hann í dagblaðinu Politico. Sú frétt byggðist hins vegar á opinberum gögnum frá Export-Import-bankanum sem Scaramucci starfaði við.
„Það sem ég vil gera er að drepa alla helvítis lekarana og ég vil koma stefnumálum forsetans aftur á beinu brautina svo við getum náð árangri fyrir bandarísku þjóðina,“ sagði Scaramucci.
„Ég er ekki að reyna að sjúga á mér eigin lim“
Samskiptastjórinn hafði einnig nokkur vel valin orð um Stephen Bannon, aðalráðgjafa Trump forseta. Ólíkt öðrum háttsettum embættismönnum sagðist Scaramucci ekki hafa nokkurn áhuga á athygli fjölmiðla.
„Ég er ekki Steve Bannon. Ég er ekki að reyna að sjúga á mér eigin lim. Ég er ekki að reyna að byggja upp mitt eigið vörumerki í gegnum helvítis styrkleika forsetans. Ég er hér til að þjóna landi mínu,“ hreitti Scaramucci út úr sér.
Hvorki Priebus né Bannon vildu tjá sig um ummæli Scaramucci.

Sjá einnig:Innanhússerjur í Hvíta húsinu fyrir opnum tjöldum
Scaramucci eyddi tístinu síðar og sagðist aðeins hafa nefnt Priebus í tístinu því það væri hans að afhjúpa þá sem leka upplýsingum í Hvíta húsinu. Í viðtali við CNN í gærmorgun virtist Scaramucci þó enn saka Priebus um lekann.
Kennir blaðamanninum um
Eftir að New Yorker birti frásögn Lizza af símtalinu við Scaramucci tísti samskiptastjórinn að hann notaði stundum „litríkt orðalag“. Hann myndi í framtíðinni sitja á strák sínum hvað það varðaði en halda áfram ástríðufullri vörn fyrir stefnumál Trump.
Í nótt virtist Scaramucci hafa hugsað sig betur um og ákvað að kenna blaðamanninum um að gífuryrði hans hafi orðið opinber.
„Ég gerði mistök með því að treysta blaðamanni. Það kemur ekki fyrir aftur,“ tísti hann.
I made a mistake in trusting in a reporter. It won't happen again.
— Anthony Scaramucci (@Scaramucci) July 28, 2017