Innlent

Ekki fleiri ölvunarakstursbrot í tíu ár

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir októbermánuð 2017 hefur verið birt.
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir októbermánuð 2017 hefur verið birt. Vísir/Gva
Alls voru skráð 107 ölvunarakstursbrot hjá embætti lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í október. Slík brot hafa ekki verið fleiri frá því í júlí 2007 þegar 111 slík brot voru skráð.

Þetta kemur fram í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir októbermánuð 2017. Þar kemur fram að alls hafi lögreglunni á höfuðborgarsævðinu borist 812 tilkynningar um hegningarlagabrot í októbermánuði og fækkaði tilkynningum nokkuð milli mánaða en alls voru 916 tilkynningar um slík brot í september.

Þrátt fyrir fækkun hegningarlagabrota í heild þá fjölgaði tilkynntum innbrotum miðað við fjölda þeirra síðastliðna 12 mánuði á undan, og á það sérstaklega við um innbrot á heimili. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 88 tilkynningar um innbrot í október og þar af 37 tilkynningar um innbrot á heimili.

Tilkynntum kynferðisbrotum fjölgaði í október miðað við meðalfjölda þeirra síðustu mánuði á undan. Tilkynntum nauðgunum fjölgaði mest í mánuðinum og hafa ekki borist jafn margar tilkynningar um nauðganir á svæðinu í einum mánuði frá því í júlí á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×