Innlent

Eigandi Surf & Turf á Selfossi fann hamingjuna í Costco

Jakob Bjarnar skrifar
Björn segir að hann sé ástfanginn í annað sinn. Hjartað slær örar þegar hann er að fara í Costco.
Björn segir að hann sé ástfanginn í annað sinn. Hjartað slær örar þegar hann er að fara í Costco.
Auglýsing frá veitingastaðnum Surf & Turf á Selfossi, áður Kaktus, hefur vakið athygli en þar er handhöfum Costco-kortsins lofað sérstökum afslætti. Á Facebook-síðu staðarins er þetta gagnrýnt en eigandi staðarins, Björn Baldursson, gefur ekki mikið fyrir það. Hann er einlægur aðdáandi Costco, hann beinlínis elskar staðinn en nú er rúmur mánuður síðan verslunin opnaði.

„Þegar ég kom í Costco fann ég það sem ég hef verið að leita að lengi. Ég fann hamingjuna,“ segir Björn.

Ha?

„Já. Mér finnst eins og ég sé ástfanginn í annað sinn. Hjartað slær örar þegar ég er á leiðinni þangað. Þetta er einlægt. Ég er ekkert að grínast með það. Ég hef ekki verið svona hamingjusamur í mörg ár. Ég þoli ekki okrið á Íslandi og skemmda grænmetið sem ég hef látið bjóða mér árum saman,“ segir Björn í samtali við Vísi.

Nær til miklu fleiri en áður

Það verður bara að segjast sem er að blaðamaður verður hálf hvumsa við þessari einlægu ástarjátningu en stamar engu að síður upp úr sér þeirri spurningu hvort þetta megi ekki heita að mismuna viðskiptavinum? Björn getur ekki séð að svo sé.

„Meirihluti þjóðarinnar, eða þeirra á Suðvesturhorninu er komið er með Costco-kort og ég er að bjóða því fólki afslátt bara eins og fólki sem er með allskonar afsláttarkort. En þarna næ ég til meirihluta þjóðarinnar. Allir að verða komnir með Costco-kort. Bara á Facebooksíðunni „Keypt í Costco“ eru komnir 80 þúsund manns.“

Björn líkir þessu við Einkaklúbbinn. Þar kaupi menn kort og fái afslátt í allskonar búðum og á allskonar veitingastöðum. „Þetta er sambærilegt. Ég sé engan mun.“

Nýir viðskiptavinir streyma að

Eigandi Surf & Turf á Selfossi á vart nógu sterk lýsingarorð í fórum sínum til að lýsa ágæti Costco.

„Costco er að bjóða mér vörurnar á miklu miklu miklu betra verði en mér hefur boðist hingað til. Þeir sem gera Costco mögulegt að selja mér svona hagstætt, það eru korthafarnir. Þetta myndi ekki ganga nema fólk væri að kaupa sér Costco-kort í stórum stíl. Þess vegna finnst mér að það fólk eigi að njóta þeirrar lækkunar sem er. Og ég er að lækka verð meira en sem því nemur. Nú er ég að fara að kaupa áfengi af Costco, Corona-bjór og hann lækkar um þrjú hundruð krónur hjá mér, úr 1000 og fer niður í 700. Ég fæ hann á helmingi lægra verði í Costco en áður. Svo vona ég að þegar reynsla kemur á þetta geti ég farið að hafa enn lægra verð. Það eykur traffíkina hjá mér ef ég get boðið lægra verð.“

Björn segist ekki vera í neinu samstarfi við Costco varðandi þessi afsláttartilboð sín. Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Nú streyma til hans viðskiptavinir sem hann hefur aldrei áður séð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×