Erlent

Söfnuðu milljónum fyrir góðhjartaðan heimilislausan mann

Samúel Karl Ólason skrifar
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Kate McClure og Johnny Bobbitt.
Kate McClure var að keyra eftir hraðbraut í New Jersy þegar hún varð eldsneytislaus í síðasta mánuði. Hún var hrædd og stressuð þegar hún gekk eftir veginum að kvöldi til að næstu bensínstöð. Áður en langt um leið hitti hún heimilislausan mann sem sagði henni að fara aftur í bílinn sinn og læsa honum. Skömmu seinna kom hann aftur og var með bensínbrúsa.

Johnny Bobbitt hafði þá eytt síðasta peningnum sínum til að kaupa bensín fyrir McClure. Bobbitt bað ekki um neitt í staðinn. Á næstu vikum stoppaði McClure nokkrum sinnum hjá Bobbitt. Hún endurgreiddi honum fyrir eldsneytið og gaf honum hlý föt og peninga. Hún vildi þó alltaf gera meira fyrir hann.

Nú hefur McClure og kærasti hennar Mark D‘Amico safnað rúmlega 300 þúsund dölum fyrir Bobbitt. Það samsvarar rúmlega 31 milljón króna.

Þau McClure og D‘Amico gripu til þess ráðs að efna til hópfjáröflunar þar sem þau sögðu frá umræddu kvöldi þegar hún varð eldsneytislaus og samskiptum sínum við Bobbitt. Markmið þeirra var að safna fyrir innborgun á íbúð og ódýrum og traustum bíl fyrir Bobbitt.



Sagan fór þó eins og eldur í sinum um internetið og hafa fjölmiðlar ytra fjallað um málið einnig. Nú hafa tæplega ellefu þúsund manns gefið til söfnunarinnar og þegar þetta er skrifað hefur 307.561 dalur safnast.

D‘Amico sagði í samtali við CNN að hann hefði aldrei átt von á að svo mikið myndi safnast. Hann segist ekki geta útskýrt hvernig þetta hafi gerst.



Bobbitt er nú kominn á hótel og með tölvu og er hann að átta sig á því hvað hann vill gera við alla peningana. D‘Amico sagði CNN að Bobbitt hefði hug á því að gefa hluta þeirra til nokkurra staða eins og athvarfa sem hann hefur getað treyst á í heimilisleysi sínu. Hann vildi þakka fyrir sig með því að hjálpa öðrum.

„Hann dreymir ekki um kampavín og kavíar.“

Hér má sjá myndband þar sem parið tilkynnti Bobbitt að söfnunin væri komin í 769 dali fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×