Viðskipti erlent

Gengishrun í Tyrklandi veldur áhyggjum á mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu

Þórir Guðmundsson skrifar
Óvissa ríkir á fjármálamörkuðum vestan hafs og austan eftir gengishrun tyrknesku lírunnar í gær. Hún féll um 16 prósent og hefur þá fallið um alls 40 prósent frá áramótum. Það bitnar fyrst og fremst á almenningi í Tyrklandi í formi verðbólgu og dýrtíðar.

Kaupahéðnum finnast efnahagsþrengingar Tyrkja sömuleiðis óþægilegar og því lækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum og í Evrópu í verði í gær. Böndin berast að Recip Tayyip Erdogan forseta, efnahagsstefnu hans og áhrifum í seðlabankanum, en tengdasonur hans er seðlabankastjóri.

Fjárfestar fylgjast með hagstjórn forsetans með vaxandi áhyggjum. Erdogan hefur þrýst á um lækkun vaxta og hefur haldið því fram opinberlega að hærri vextir valdi hærri verðbólgu.

Við þetta bættist í gær að Bandaríkjamenn tilkynntu um refsitolla á Tyrki vegna fangelsunar þeirra á bandarískum presti, sem sagður er hafa tengsl við stjórnarandstæðinga. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær um tolla á ál og stál frá Tyrklandi og við það lækkaði verðgildi lírunnar enn frekar. Stærsti hluti útflutnings Tyrkja á stáli er til Bandaríkjanna.

Erdogan sagðist á fundi með flokksmönnum sínum í gær fordæma refsiaðgerðir Bandaríkjamanna sem sem væru ígildi fjárkúgunar og ógnuðu öllum heiminum. Nú er svo komið að vandræði Tyrkja varða ekki bara almenning í Tyrklandi heldur eru vaxandi áhyggjur af því að þær hafi neikvæð áhrif á efnahagslíf annars staðar einnig.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×