Fótbolti

Alfreð: Gaman að skora en leiðinlegt þegar við töpum

Dagur Lárusson skrifar
Alfreð Finnbogason var að vonum svekktur eftir tap Íslands gegn Noregi í kvöld en hann skoraði fyrra mark Íslands úr vítaspyrnu.

Alfreð var tekinn útaf í hálfleiknum en Björn Bergmann kom inná fyrir hann. Alfreð segir að það hafi verið fyrst og fremst svekkjandi að tapa.

„Það svekkjandi að tapa fyrst og fremst, við verðum að hugsa um hvað er framundan hjá okkur, að allir séu heilir, og við verðum kannski að horfa á það sem jákvæða punkta.“

Alfreð sagði að það hafi verið engin hræðsla meðal leikmanna að gefa sig alla í þennan leik

„Nei auðvitað ekki, við töluðum um það fyrir leik en auðvitað er þetta samt alltaf bakvið eyrað og menn kannski smá varkárir. Við vorum samt í frábærri stöðu til að klára þennan leik og því svekkjandi að klára hann ekki.“

Eins og áður kom fram skoraði Alfreð fyrra mark Íslands í dag af vítapunktinum.

„Já ég fékk það hlutverk í dag að taka vítin. Auðvitað er alltaf gaman að skora en það er leiðinlegt þegar við vinnum ekki.“

Alfreð talaði um það að það jákvæða sem strákarnir taka úr þessum leik sé leikæfingin.

„Leikæfingin held ég. Menn kannski ekki búnir að spila í 3-4 vikur og því mikilvægt að menn fái mínútur á vellinum,“ sagði Alfreð Finnbogason.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×