Innlent

Gætu sleppt kosningu um úrsögn VR úr ASÍ

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Stjórn VR skoðar hvort rétt sé að láta reyna á að félagið gangi úr Alþýðusambandi Íslands án þess að bera það undir félagsmenn VR í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við Fréttablaðið. Hann býst við því að látið yrði reyna á málið fyrir félagsdómi.

Ragnar segir að VR sé aðili að ASÍ í gegnum aðild að Landssambandi verslunarmanna. „Það eina sem við þurfum að gera er að segja okkur úr Landssambandinu og þá segjum við okkur sjálfkrafa úr ASÍ. Stjórnin getur ákveðið þá úrsögn.“ Hann segir þó að lög ASÍ geri ráð fyrir að aðildarfélög þurfi að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu til að segja sig úr sambandinu. „Þarna er ágreiningsmál og við erum að hugsa um að láta reyna á það fyrir félagsdómi,“ segir Ragnar. Málið verði skoðað á trúnaðarráðsfundi sem verði líklega í mars eða apríl.

Ragnar segir að VR greiði Landssambandi verslunarmanna og ASÍ um 150 milljónir á ári. „Ég sé enga ástæðu til að vera að borga nánast helminginn af rekstrarfé Alþýðusambandsins og halda því uppi þegar mér finnst það vera að vinna á móti hagsmunum launafólks. Þá spyrjum við okkur hvað getum við fengið fyrir þessar 150 milljónir. Getum við ráðið inn auka lögfræðinga og farið í meiri neytendavernd og eflt okkar þjónustu og okkar sjóði?“

Ragnar segir þó þessa leið, að fara með málið fyrir félagsdóm, einungis vera til skoðunar. „Ég er sannfærður um það að ef við förum í atkvæðagreiðslu, þá vinnum við þá atkvæðagreiðslu,“ segir Ragnar. Ef málið færi í allsherjaratkvæðagreiðslu yrði hún haldin á þessu ári.

Ítarlegar verður fjallað um málefni verkalýðsfélaganna í helgarblaði Fréttablaðsins á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×