Erlent

Leita enn að fólki í brakinu í Genúa

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn binda enn vonir við að finna fólk á lífi.
Slökkviliðsmenn binda enn vonir við að finna fólk á lífi. Vísir/AP
Björgunaraðilar leita enn að fólki í braki brúar sem hrundi í Genúa í gær. Minnst 35 eru látnir og er nokkurra saknað en fregnum ber ekki saman um hve mörgum. Þar að auki eru fleiri en tíu á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi. Enn liggur ekki fyrir hvað olli því að brúin hrundi.

Við leitina notast slökkviliðsmenn leitarhunda og klifurbúnað þar sem þeir vinna sig í gegnum fjölmörg tonn af steypu og stáli. Talsmaður slökkviliðsins segir að ekki verði hætt fyrr en allir verði fundnir og binda þeir vonir við að finna fólk á lífi.

Brúin sem um ræðir var byggð á sjöunda áratugi síðustu aldar. Hins vegar voru gerðar endurbætur á henni árið 2016. Þá stóð yfir vinna við að styrkja brúna þegar hún hrundi. Brúin hrundi á hús, vegi og lestarteina. Rúmlega 400 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín af vegna áhyggja um að frekari hlutar brúarinnar muni hrynja.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, hefur heitið því að draga til ábyrgðar hvern þann sem kann að bera ábyrgð á hruni brúarinnar. Langur kafli hrundi úr tæplega 50 metra hæð. Á fjórða tug bíla voru á brúnni.



Fyrirtækið Autostrade, sem sér um rekstur brúarinnar, segir að viðgerðir hafi staðið yfir þegar hún hrundi. Starfsmenn fyrirtækisins hafi verið að styrkja brúnna. Þá segir fyrirtækið að umfangsmikil rannsókn muni fara fram.

Slökkviliðið birti í gærkvöldi myndband af því þegar einum aðila var bjargað úr bíl sem sat fastur í brakinu.


Tengdar fréttir

Minnst 30 látnir í Genúa

Minnst 30 eru látnir eftir að langur kafli stórrar brúar í Genúa á Ítalíu hrundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×