Tvö mörk á stuttum tíma frá Valon Berisha tryggði austurríska liðinu Salzburg sigur á Borussia Dortmund í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Berisha gestunum frá Salzburg yfir úr vítaspyrnu á 49. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni á 56. mínútu og tvöfaldaði forystu gestanna.
Andre Schurrle klóraði í bakkann fyrir Dortmund á 62. mínútu en Ausutrríkismennirnir fóru með mikilvægan útisigur af hólmi.
Atletico Madrid þurfti ekki mikið að hafa fyrir sigrinum gegn Lokomotiv Moskvu í fyrri leik liðanna á Spáni.
Saul Niguez kom heimamönnum yfir á 22. mínútu og Diego Costa byrjaði seinni hálfleikinn á marki eftir stoðsendingu Antoine Griezmann.
Koke innsyglaði svo sigurinn á 90. mínútu. Verkefnið erfitt fyrir Rússana í seinni leiknum á heimavelli þeirra.
Marcelo tryggði Lyon útisigur gegn CSKA Moskvu með sigurmarki á 68. mínútu eftir stoðsendingu Memphis Depay.

