Innlent

Ný meinvörp í Stefáni Karli

Jakob Bjarnar skrifar
Stefán Karl. Þjóðin hefur fylgst með harðri baráttu hans við krabbamein og nú hafa ný meinvörp fundist sem ekki er hægt að fjarlægja með skurðaðgerð.
Stefán Karl. Þjóðin hefur fylgst með harðri baráttu hans við krabbamein og nú hafa ný meinvörp fundist sem ekki er hægt að fjarlægja með skurðaðgerð. visir/andri marínó
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ritstjóri, greindi frá því á Facebook nú rétt í þessu að eftir ferð til Kaupmannahafnar, þar sem maður hennar leikarinn dáði, Stefán Karl Stefánsson fór í Jáeindaskanna, að ný meinvörp hafi fundist í honum sem ekki er hægt að fjarlægja með skurðaðgerðum.

Þetta eru þungbærar fréttir en þjóðin hefur fylgst með baráttu Stefáns Karls við veikindi nú í um tvö ár en Vísir ræddi við Stefán Karl þegar veikindin komu upp á sínum tíma, í einlægu viðtali.

„Þrátt fyrir að vita um langa hríð að þessi dagur myndi renna upp eru þetta auðvitað erfið þáttaskil. Engin lækning er til við langt gengnu óskurðtæku gallgangakrabbameini.

Stefán Karl og Steinunn Ólína.visir/valli
Nú taka við lífslengjandi tilraunir með lyfjagjöfum og við vonum að þær gangi sem allra best og hafi tilætluð áhrif, að bæta líðan Stefáns og lengja líf hans,“ segir Steinunn Ólína. Fyrsta lyfjagjöfin var í gær.

„Að gefnu tilefni vil ég taka fram að Stefán Karl er í höndum frábærs krabbameinslæknis sem við treystum fullkomlega og gerir allt sem í hans valdi stendur. Eins njótum við aðstoðar heimahjúkrunarteymis, kvenskörungar allar saman, dásamlegar.

Veikindi Stefáns hafa áhrif á alla fjölskylduna eðlilega, við eigum misgóða daga. Suma daga eigum við ósköp bágt, aðra daga erum við bara kát og gleðjumst yfir öllu því sem við höfum eignast og lifað saman. Það getur enginn tekið frá okkur, hvernig sem allt fer. Ekki einu sinni dauðinn sjálfur.“


Tengdar fréttir

Stefán stígur til hliðar vegna heilsubrests

Leikarinn Hilmir Snær Guðnason hefur tekið við hlutverki Frímanns flugkappa í sirkussöngleiknum Slá í gegn sem frumsýndur verður í Þjóðleikhúsinu þann 24. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×