Innlent

Síðasti dagur til að skila skattframtali í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir góðan gang í framtalsskilunum í ár.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir góðan gang í framtalsskilunum í ár. vísir/ÞÞ
Frestur til að skila inn skattframtali til ríkisskattstjóra rennur út í dag. Hægt er að sækja um frest sé maður í tímaþröng en fresturinn sem veittur er er þrír dagar, eða til 16. mars. Skattframtalinu er skilað í gegnum skattur.is og segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, að nánast allir, eða 99 prósent framteljenda, skili skattframtalinu rafrænt.

Spurður út í það hvernig skilin hafa verið segir Skúli að mikill gangur hafi verið í þeim. Þannig hafi tölur sem teknar voru saman fyrir helgi og bornar saman við tölur frá sama tíma í fyrra sýnt að skilin í ár eru 37 prósent betri.

Núna hafa síðan alls 152.505 manns skilað skattframtali en alls eru 290.000 einstaklingar skattskyldir að sögn ríkisskattstjóra. Skúli kveðst ekki hafa nákvæma tölu yfir þá sem hafa sótt um frest til að skila en undanfarin ár hafa um 70 þúsund manns sótt um frest og má búast við að fjöldinn verði svipaður í ár.

Fjöldi erlendra verkamanna þurft aðstoð við framtalsgerðina

„Það er búin að vera mikil traffík til okkar og komið nokkur þúsund manns en stór hluti af því eru erlendir ríkisborgarar sem búa erlendis en starfa hér á landi. Það eru verkamenn sem vinna í byggingargeiranum og ýmsum öðrum geirum sem verða skattskyldir hérna því þeir eru hluta úr ári hér. Þeir þurfa margir hverjir aðstoð og við höfum veitt þá aðstoð,“ segir Skúli.

Þá eru skattframtöl frá svokölluðum fagaðilum, það er endurskoðendum og bókurum, fyrr á ferðinni en undanfarin ár en þeir hafa frest til 7. apríl til að skila framtölum einstaklinga. Aðspurður hvers vegna hann haldi að það sé vísar Skúli í það að ríkisskattstjóri hafi auglýst framtalsskilin nokkuð grimmt undanfarið, meðal annars á vefmiðlum og í dagblöðum.

„Framhaldið af þessu er síðan það að við stefnum að því að ljúka álagningunni mánuði fyrr heldur en í fyrra. Við ljúkum henni 31. maí sem er þá tveimur mánuðum fyrr en var fyrir fjórum árum. Síðan flýttum við því fyrir þremur árum þegar það kom í lok júní og núna mun það koma í lok maí. Þannig að það er tiltölulega stuttur tími frá því að menn skila framtali og þar til að uppgjörið liggur fyrir,“ segir Skúli.

„Það á alltaf að skila framtali“

En hvað gerist ef maður skilar ekki skattframtali?


„Þá eru skattstofnar áætlaðir á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum. Það segir í lögunum að það beri að tryggja að áætlunin sé ekki of lág. Þá er ákveðnum prósentum bætt við. Aðilar sem ekki skila framtali, þeir lenda í vandræðum fyrr eða seinna því ef þeir þurfa til dæmis að sækja um lán eða eitthvað þess háttar þá er skattframtalið grundvöllur og þá vantar upplýsingar og svo framvegis. Það á alltaf að skila framtali og þetta tekur mjög stuttan tíma hjá langflestum aðilum,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×