Þrír foreldrar barna sem voru skotin til bana í skotárás í Sandy Hook-grunnskólanum í Bandaríkjunum árið 2012 hafa stefnt fjölmiðlamanninum Alex Jones vegna ærumeiðinga. Jones hefur ítrekað borið út samsæriskenningar um að árásin hafi verið sett á svið og að foreldrarnir væru í raun leikarar. Tilgangurinn með svikunum væri að grafa undan rétti fólks til byssueignar.
Jones rekur hægrisamsæriskenningamiðilinn Infowars. Hann er ekki síst þekktur fyrir vanstillt reiðiöskur í þáttum sínum. Þar hefur hann meðal annars sakað Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að hafa gert froska samkynhneigða.
Fjölskyldur fórnarlamba barnanna tuttugu sem féllu fyrir hendi byssumanns í Sandy Hook hafa frá upphafi mátt þola að Jones breiddi út samsæriskenningar sínar um að stjórnvöld hafi sett blóðbaðið á svið. Börnin voru öll yngri en sjö ára. Sex fullorðnir létu lífið í árásinni.
Nú hafa foreldrar drengs sem var myrtur í árásinni stefnt Jones í Texas þar sem fjölmiðlamaðurinn býr og starfar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Faðir annars drengs hefur einnig stefnt Jones vegna þess að hann sakaði manninn um að hafa logið því til að hann hefði haldið á líki sonar síns með skotsári á höfðinu eftir árásina.
Áreitt á netinu og í persónu
Alls krefjast foreldrarnir einnar milljónar dollara í bætur frá Jones. Þrátt fyrir að fimm ár séu liðin frá fjöldamorðinu segja foreldrarnir að Jones hafi ekki sýnt nein merki um að hann ætlaði að láta þá í friði.
Fram hefur komið að fjöldi fjölskyldna barna sem voru myrt í árásinni hafi verið áreitt af fólki, bæði í raun- og netheimum. Kona á Flórída var dæmd í fimm mánaða fangelsi í fyrra eftir að hún hafði sent einu foreldrinu sem nú hefur stefnt Jones líflátshótanir.
Þrátt fyrir sturlaðar kenningar og framkomu Jones nýtur Infowars töluverðra vinsælda. Donald Trump Bandaríkjaforseti var meðal annars gestur Jones í þætti í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar árið 2016.