Erlent

Kellogg flýr frá Venesúela

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Starfsmaður Kellogg bíður eftir upplýsingum um framtíð sína hjá fyrirtækinu.
Starfsmaður Kellogg bíður eftir upplýsingum um framtíð sína hjá fyrirtækinu. Vísir/Ap
Bandaríski morgunkornsframleiðandinn Kellogg hefur ákveðið að stöðva framleiðslu sína í Venesúela sökum bágs efnahagsástands landsins. Starfsmenn fyrirtækisins gátu ekki mætt til vinnu í gærmorgun því búið var að læsa hurðum og byrgja fyrir glugga verksmiðjunnar.

Forseti landsins, Nicolas Maduro, sagði á fjöldafundi í gær að hann ætlaði sér að koma stjórn verksmiðjunnar í hendur starfsmanna fyrirtækisins. Hann segir ákvörðun Kellogg stangast á við stjórnarskrá landsins og heitir því að óbreyttir starfsmenn geti haldið áfram að framleiða morgunkorn fyrir sveltandi alþýðu Venesúela.

Sjá einnig: Sjálf­skapar­víti Venesúela: Sósíalíska drauma­ríkið sem koll­varpaðist í mar­tröð

Maduro sækist eftir endurkjöri á sunnudag en efnahagur landsins hefur leikið Venesúela grátt á síðustu árum. Lækkandi olíuverð og rýrnandi virði bólívarsins, gjaldmiðilsins í Venesúela, hefur leitt til djúprar kreppu í landinu.

Margar verslanir í landinu standa tómar og var verðbólga í landinu um 6000 prósent á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×