Erlent

Malavar hæstánægðir með fimm sjúkrabíla frá Íslandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um er að ræða fimm Land Cruiser-jeppa
Um er að ræða fimm Land Cruiser-jeppa Nyasa Times
Sendiráð Íslands í Malaví færði um helgina þarlendum stjórnvöldum fimm sjúkrabifreiðar, sem framvegis munu aka um Mangochi-hérað. Fjölmargir Malavar láta lífið á hverju ári því þeir komast ekki undir læknishendur.

Land Cruiser-jepparnir fimm voru afhjúpaðir við hátíðlega athöfn á bílastæði héraðsspítalans í Mangochi á laugardaginn. Í ræðu sinni við afhjúpunina sagði innanríkisráðherra landsins, Kondwani Nankhumwa, að það væri með trega sem hann viðurkenndi hversu bágborið heilbrigðiskerfi landsins væri.

„Ég verð að viðurkenna að fjölmargir láta lífið í landinu vegna skorts á sjúkrabílum. Margar fjölskyldur þurfa að horfa á ástvini sína deyja fyrir framan sig vegna þess að það eru engir sjúkrabílar sem geta flutt þá á næsta sjúkrahús,“ er haft eftir Nankhumwa á vef Nyasa Times. Hann bætti síðan við að eitt helsta markmið malavískra stjórnvalda væri að tryggja að minnsta kosti einn sjúkrabíl fyrir hvern spítala landsins.

Bílarnir sem afhjúpaðir voru um helgina eru liður í þróunarsamvinnu Íslands og Malaví, sem starfrækt hefur verið í rúman aldarfjórðung. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur stutt við margvísleg verkefni í Mangochi á síðustu árum en héraðið er talið eitt það fátækasta í Malaví.

„Íbúar og stjórvöld í Malaví eru gríðarlega þakklát íslensku þjóðinni og ríkisstjórninni fyrir gjöfina, sem mun stórbæta grunnþjónustuna í Mangochi-héraði, sérstaklega í heilbrigðismálum,“ sagði Nankhumwa um leið og hann hvatti starfsmenn héraðsspítalans til að nýta sér bílana við störf sín.

Fulltrúi Íslands við afhjúpunina, sendiráðsstarfsmaðurinn Ágústa Gísladóttir, nýtti tækifærið og lofsamaði náið samband Íslands og Malaví. Hún undirstrikaði jafnframt að Íslendingar muni áfram aðstoða stjórnvöld og íbúa Malaví á hinum ýmsu sviðum, ekki síst í heilbrigðismálum.

Frekari upplýsingar og myndir frá athöfninni má nálgast á vef Nyasa Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×