Tait er ein af fjölmörgum í alþjóðlegu leitarteymi sem leitað hafði að drengjunum áður en þeir fundust í gær en þeir höfðu þá verið í hellinum í níu daga. Þar eru þeir enn við erfiðar aðstæður og alls óvíst hvenær þeim verður bjargað úr hellinum en alls eru drengirnir tólf á aldrinum ellefu til sextán ára og eru þeir í hellinum með þjálfara sínum.
Rætt er við Tait á vef Gurdian en hún ásamt öðrum leitarliðinu, sem nú er orðið björgunarlið, er með bækistöð við rætur fjallsins Nang Non. Hún lýsir andrúmsloftinu í bækistöðvum hópsins, sem eru í raun nokkurs konar björgunarbúðir, sem góðu en auk hermanna eru þar kafarar, heilbrigðisstarfsmenn, björgunarsveitarmenn og aðrir sjálfboðaliðar.

„Þetta var eins og eitthvað úr bíómynd þegar við fengum góðu fréttirnar. Ég fæ gæsahúð þegar ég hugsa um þetta augnablik og að svona mikil vinna hafi skilað einhverju jákvæðu því það gerist ekki alltaf,“ segir Tait.
En þrátt fyrir jákvæðni og von er óvissan líka til staðar því enn er óljóst hvað gerist næst; hvenær drengjunum verður bjargað og hvernig.