Erlent

Lögbann sett á birtingu teikninga að byssum á netinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Cody Wilson, maðurinn sem hugðist birta teikningar til að prenta út byssur, með plastbyssu sem hann prentaði út með þrívíddarprentara.
Cody Wilson, maðurinn sem hugðist birta teikningar til að prenta út byssur, með plastbyssu sem hann prentaði út með þrívíddarprentara. Vísir/AP
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur sett lögbann á birtingu á teikningum til að framleiða byssur með þrívíddarprentara með vísan til þjóðaröryggis. Lögbannið var sett á aðeins nokkrum klukkustundum áður en til stóð að birta teikningarnar.

Washington Post segir að dómsmálaráðherrar átta ríkja auka Columbia-svæðis hafi krafist lögbannsins þar sem birting teikninganna væri ógn við þjóðaröryggi. Ríkisstjóri New York setti jafnframt lögbann á manninn sem hugðist birta teikningarnar á netinu.

Lögmaður mannsins sem stýrir félagasamtökum sem aðhyllast rétt almennings til að bera vopn segir að lögbannið stríði gegn tjáningarfrelsi hans. Maðurinn hefur barist fyrir rétti sínum til þess að birta teikningar af skotvopnum á netinu frá árinu 2013. Yfirvöld hafa hins vegar haldið því fram að birting teikninganna jafngildi ólöglegum útflutningi á skotvopnum.

Öllum að óvörum ákvað ríkisstjórn Donalds Trump forseta að gera sátt við manninn og veita honum undanþágu frá lögum til að birta teikningarnar. Svo virðist sem að teikningarnar hafi verið birtar á netinu í dag þrátt fyrir lögbannið.

Yfirvöld óttast að ef teikningarnar verði aðgengilegar hverjum sem er á netinu verði til vopnabúr órekjanlegra skotvopna og eigendur þeirra geti komið sér undan bakgrunnseftirliti með skotvopnaeigendum og auðveldlega eytt þeim eftir notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×