Farþegaflugvél brotlenti í lóni skammt frá alþjóðaflugvellinum á eyjunni Chuuk á Míkrónesíu. Engin slys urðu á fólki.
Myndir af atvikinu sýna flugvélina, sem er á vegum flugfélagsins Air Niugini frá Papúa Nýju-Gíneu, mara í hálfu kafi í vatninu. Þrjátíu og fimm farþegar, auk tólf áhafnarmeðlima, voru um borð í vélinni en enginn þeirra slasaðist alvarlega. Allir um borð voru þó fluttir á sjúkrahús til skoðunar.
Flugmenn vélarinnar hugðust lenda henni á flugbraut á eyjunni en mistókst og hafnaði flugvélin þess í stað í vatninu. Ekki er vitað hvað olli slysinu en BBC hefur eftir yfirvöldum á svæðinu að rannsókn hefjist fljótlega.
