Slóvakinn Maros Sefcovic, einn varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, hefur lýst því yfir að hann sækist ekki lengur eftir því að verða næsti forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Þess í stað hefur hann lýst yfir stuðningi við Hollendinginn Frans Timmermans, annan varaforseta framkvæmdastjórnarinnar, sem sækist eftir því að verða frambjóðandi fylkingar Jafnaðarmanna á Evrópuþinginu til forseta framkvæmdastjórnarinnar.
Jean Claude Juncker lætur af störfum eftir kosningarnar til Evrópuþingsins á næsta ári.
Á könnu Leiðtogaráðsins
Sefcovic, sem farið hefur með málefni orkubandalagsins innan framkvæmdastjórnarinnar, lýsti yfir framboði sínu í september en hefur nú dregið það til baka. Hann segist þó reiðubúinn að starfa með Timmermans.
Leiðtogaráð ESB mun tilnefna næsta forseta framkvæmdastjórnarinnar þar sem því er ætlað að taka tillit til niðurstöðu kosninganna til Evrópuþingsins. Evrópuþingið hefur talað fyrir því að forsetinn verði valinn úr hópi frambjóðenda fylkinganna á þinginu. Deildar meiningar eru þó um þá skoðun.
Ræðst í desember
Þinghópur Jafnaðarmanna á Evrópuþinginu munu að öllum líkindum fylkja sér að baki Timmermans á þingi sínu í Lissabon í næsta mánuði. Hópurinn er næststærsti þinghópurinn á Evrópuþinginu.
Stærsti hópurinn, hægriflokkurinn Evrópski þjóðarflokkurinn (EPP), mun velja tilnefna sinn frambjóðanda á þingi í Helsinki á fimmtudaginn. Þar stendur valið milli bæverska þingflokksformanns EPP á Evrópuþinginu, Manfred Weber, og fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, Alexander Stubb.
Timmermans er fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands og hefur átt sæti í framkvæmdastjórn ESB frá árinu 2014.
Svíþjóð
Ísland