Handbolti

Nora hafði betur gegn norska hand­knatt­leiks­sam­bandinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nora hefur fengið norska sambandið til þess að breyta sínum vinnureglum.
Nora hefur fengið norska sambandið til þess að breyta sínum vinnureglum. vísir/afp
Norska handboltastjarnan Nora Mörk hefur ákveðið að halda áfram að spila fyrir landsliðið þar sem norska handknattleikssambandið hefur ákveðið að breyta starfsháttum sínum.

Mörk hafði hótað því að hætta í landsliðinu vegna vinnubragða norska sambandsins. Nektarmyndir af henni, sem var stolið og lekið á netið, voru í dreifingu á meðal leikmanna norska karlalandsliðsins og sambandið gerði ekkert í því.

Það olli Mörk eðlilega miklum vonbrigðum og því hótaði hún í kjölfarið að hætta að spila fyrir landsliðið. Það hefði verið mikill skellur fyrir liðið enda er hún ein besta handknattleikskona heims.

„Ég veit ekki hvort ég vilji tilheyra hópi sem gerir allt til þess að vernda þá sem eru að brjóta á mér,“ sagði Mörk á sínum tíma.

Hún hefur nú fundað með stjórn norska handknattleikssambandsins sem hefur í kjölfarið ákveðið að breyta öllum sínum vinnureglum er varðar kynferðislega áreitni.

„Við höfum búið til nýjar reglur um hvernig við tæklum öll svona mál í framtíðinni og Nora er ánægð með það skref. Hún hefur því ákveðið að spila áfram fyrir landsliðið og það erum við mjög ánægð með,“ sagði formaður norska handknattleiksambandsins en fjölmiðlar ytra slá því upp að þetta sé sigur hjá leikmanninum gegn sambandinu. Hún hafði sitt í gegn.

Þó svo Mörk ætli að spila aftur fyrir landsliðið er langt í að hún spili næst landsleik enda meiddist hún illa á dögunum og ekki víst hún spili handbolta aftur fyrr en á næsta ári.


Tengdar fréttir

Nýtt risaáfall fyrir Noru Mörk

Norska handboltakonan Nora Mörk hefur síðustu mánuði verið glíma við nettröll og útbreiðslu viðkvæmra mynda af sér en í gærkvöldi kom annarskonar áfall.

Nora Mörk svarar Myrhol: Hefur ekki misst trúna á öllum karlmönnum

Norska handboltakonan Nora Mörk hefur nú svarað gagnrýni fyrirliða norska karlalandsliðsins en Bjarte Myrhol gagnrýndi hana fyrir slæma tímasetningu á því þegar hún sagði frá því að viðkvæmar myndir af henni hefðu gengið á milli leikmanna norska karlalandsliðsins í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×