Innlent

Árangurinn felst í samstöðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Forseti ASÍ segir það alveg klárt mál að það sé í höndum félagsmanna VR að taka ákvörðun um úrsögn úr ASÍ. Samstaða stéttarfélaganna sé lykilatriði til þess að ná árangri í hagsmunabaráttu fyrir félagsmenn.
Forseti ASÍ segir það alveg klárt mál að það sé í höndum félagsmanna VR að taka ákvörðun um úrsögn úr ASÍ. Samstaða stéttarfélaganna sé lykilatriði til þess að ná árangri í hagsmunabaráttu fyrir félagsmenn. Mynd/samsett
„Það hefur alltaf verið þannig að slagkraftur okkar gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum ræðst af samstöðu á vettvangi launafólks en ekki sundrungu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir sterklega koma til greina að félagið segi sig úr ASÍ. Gylfi segir það gefa augaleið að slík ákvörðun myndi hafa mikil áhrif á stöðu félagsmanna Alþýðusambandsins og þar með VR.

„Það hefur verið innri umræða árum saman um baráttuaðferðir. Það er ekkert nýtt og það er ekkert að því. Þetta er hreyfing sem nærist á hugsjónum og hjartalagi. En það sem ræður úrslitum er geta hreyfingarinnar og aðildarfélaganna til að sameinast um áherslur og fara saman fram með þær,“ segir Gylfi. Hann segist ekki gagnrýna það þegar menn tali af hugsjón.

„En ég hef ekki enn orðið var við það með hvaða hætti þessir einstaklingar ætla að tala okkur inn í samstöðu. Þeir eru mjög iðnir við það að tala okkur inn í sérstöðu. En það er ekki í sérstöðunni sem við náum árangri. Það er í samstöðunni.“

Fréttablaðið sagði frá því í gær að til skoðunar væri hvort hægt sé að taka ákvörðun um úrsögn VR úr ASÍ án undangenginnar atkvæðagreiðslu á meðal félaga.

Formaðurinn Ragnar Þór sagði að VR myndi þá segja sig úr Landssambandi verslunarmanna og VR sé aðili að ASÍ í gegnum Landssambandið. Þá yrði látið reyna á málið fyrir félagsdómi

„Það er auðvitað bara sjálfstæð ákvörðun hvort VR vill vera í Landssambandi verslunarmanna eða ekki. En ákvörðun um það er í höndum félagsmanna VR. Að sama skapi er ákvörðun um það að vera í Alþýðusambandinu sjálfstæð ákvörðun og það fer líka eftir afstöðu félagsmanna VR.

Þessar reglur eru algjörlega klárar og um þetta fjallað í 17. grein laga ASÍ,“ segir Gylfi. Þetta séu skýr ákvæði og þau séu aldargömul.

Eftir að frétt Fréttablaðsins birtist í gær hafði Ragnar Þór samband við blaðið með tölvupósti. Sagði hann að hugsunin með því að láta reyna á málið fyrir félagsdómi væri alls ekki að sniðganga lýðræðið innan VR, heldur láta reyna á reglur ASÍ um úrsögn.

„Við ræddum einungis þennan möguleika til að láta reyna á það fyrir dómi hvort lög ASÍ geti verið æðri okkar lögum en að sjálfsögðu verður svona ákvörðun aldrei tekin nema með meirihluta stuðnings okkar félaga.

Þannig að engar líkur eru á að endanleg ákvörðun um úrsögn verði tekin án lýðræðislegrar niðurstöðu um málið,“ sagði Ragnar síðan á Facebook.

Ítarlegri umfjöllun um verkalýðshreyfinguna er í helgarkafla blaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×