Tilkynnt var um 52 innbrot í heimili eða einkalóðir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um innbrot frá því í desember árið 2012.
Tilkynningum um innbrot fjölgaði nokkuð í febrúar miðað við síðustu tólf mánuði á undan og þar af fjölgaði innbrotum á heimili eða einkalóðir mikið, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrotatölfræði fyrir febrúarmánuð. Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þessum brotum er sögð miða vel.
Lögreglan hefur gert húsleitir allvíða á höfuðborgarsvæðinu og lagt hald á mikið af þýfi. Unnið er að því að hafa samband við þolendur innbrota svo hægt sé að koma hlutum aftur í réttar hendur og segir lögreglan að vel hafi gengið í þeim efnum. Vinnan sé þó óneitanlega nokkuð tímafrek. Lögregla telur víst að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.
Í febrúar voru 646 hegningarlagabrot tilkynnt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Skráður fjöldi tilkynninga var nokkuð undir meðalfjölda síðustu sex og síðustu tólf mánaða á undan. Auk hegningarlagabrota fækkaði skráðum þjófnaðarbrotum, meiriháttar eignaspjöllum, fíkniefnabrotum og akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Það sem af er ári hafa þó verið skráð um 77 prósent fleiri brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna en höfðu verið skráð að meðaltali fyrstu tvo mánuði áranna 2015 til 2017.
Innbrot á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið fleiri í rúm fimm ár

Tengdar fréttir

Tímafrekt að koma þýfi til þolenda
Lögreglan segir rannsókn vegna fjölda innbrota á höfuðborgarsvæðinu ganga vel og hald hafi verið lagt á mikið þýfi.

Eigendur bera kennsl á þýfi og meintir þjófar áfram í haldi
"Það er herjað á okkur, virðist vera,“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.

Þjófarnir sækjast eftir skartgripum: „Virðast vita hvar Íslendingar geyma þetta“
Tuttugu og sex innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar, flest í Garðabæ, Grafavogi og Kópavogi.

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna innbrotahrinu
Karlmaður var í dag úrskurðaður í tveggja vikna áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.