Körfubolti

Sigrún: Þrjátíu stig er allt of mikið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sigrún Sjöfn og félagar í íslenska landsliðinu hafa tapað öllum fimm leikjum sínum í undankeppni EM 2019
Sigrún Sjöfn og félagar í íslenska landsliðinu hafa tapað öllum fimm leikjum sínum í undankeppni EM 2019 vísir/daníel
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sagði þrjátíu stiga muninn sem Ísland tapaði með gegn Slóvakíu ekki gefa rétta mynd á getumun liðanna.

„Full stórt tap. Við vorum að berjast og gerðum okkar besta en þær eru stórar og ill viðráðanlegar, sérstaklega inn í teig,“ sagði Sigrún eftir 52-82 tapið í dag.

„Þetta var erfitt en þrjátíu stig er heldur of mikið“

Íslenska liðið var inni í leiknum allt fram í byrjun fjórða leikhluta þegar gestirnir frá Slóvakíu tóku áhlaup og kláruðu leikinn.

„Við missum þær frá okkur allt of langt. Strax í upphafi missum við þær aðeins frá okkur og vorum búnar að vera að elta allan leikinn en vorum inni í leiknum. Í byrjun fjórða fór þetta að síga á verri hlutann.“

„Þær eru of stórar og erfitt að vera að verjast alltaf inni í teig. Þær ýttu okkur til og frá og við leyfðum þeim það svolítið. Full stórt tap.“

„Sóknin var mjög stirð og það er eitthvað sem við þurfum að fara yfir á næstu æfingum fyrir Bosníuleikinn. Það er erfitt að vera með eitt, tvö dripl og svo tökum við hann upp og vitum eiginlega ekki hvað við eigum að gera við hann.“

„Við þurfum að fara og reyna að fá einfaldari möguleika sem geta kannski hjálpað okkur. Þær pressuðu okkur hátt úti þannig að við þurfum kannski að fara og hlaupa og sjá hvað er á bak við.“

Þrátt fyrir stórt tap er þó hægt að finna jákvæða punkta við frammistöðu íslenska liðsins.

„Að sjálfsögðu er maður ósáttur við hvernig lokatölurnar en við getum horft á góða punkta úr leiknum. En mér finnst þrjátíu stig allt of, allt of mikið og kannski ekki munurinn á liðunum sem slíkur,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×