Fótbolti

Tíu ár síðan að Messi vann eina titilinn sinn með Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi kyssir hér Ólympíugullið fyrir tíu árum siðan.
Lionel Messi kyssir hér Ólympíugullið fyrir tíu árum siðan. Vísir/Getty
Lionel Messi er sigursælasti leikmaður Barcelona í sögunni en hann vann sinn 33. titil með félaginu á dögunum. Titlarnir hafa aftur á móti verið öllu færri með argentínska landsliðinu.

Messi hefur aðeins unnið einn titil með argentínska landsliðinu og það var Ólympíugullið sem hann vann með liðinu 23. ágúst 2008 eða fyrir nákvæmlega tíu árum síðan.



Angel Di Maria skoraði eina mark leiksins á 58. mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Lionel Messi. Stoðsendingin minnti talsvert á stoðsendingu Diego Maradona á Jorge Burruchaga í úrslitaleik HM 1986.

Messi fékk boltann fyrir aftan miðlínunni og stakk honum inn í hlaup hjá Angel Di Maria sem lenti einn á móti markverðinum og skoraði laglega.

Þarna var Lionel Messi 21 árs og allir héldu að hann myndi nú taka fleiri titla með argentínska landsliðinu en annað hefur nú komið á daginn.





Messi lék sinn 85 A-landsleik með Argentínu á HM í Rússlandi í sumar þar sem Messi og félagar duttu út í sextán liða úrslitunum á móti verðandi heimsmeisturum Frakka.

Lionel Messi hefur tekið þátt í fjórum heimsmeistaramótum og fjórum Suðurameríkukeppnum. Messi tapaði úrslitaleik HM 2014 og úrslitaleiknum í þremur Suðurameríkukeppnum (2007, 2015 og 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×