Valkostur fyrir Þýskaland, öfgahægriflokkur sem er andsnúinn innflytjendum, mælist nú stærri en annar ríkisstjórnarflokkur landsins í nýrri skoðanakönnun. Einhver ofbeldisfyllstu mótmæli þýskra öfgahægramanna í áratugi hafa brotist út í kjölfar manndráps í borginni Chemnitz..
Fulltrúar flokksins hafa gert sér mat úr máli tveggja innflytjenda frá Sýrlandi og Írak sem voru handteknir fyrir að stinga mann til bana í Chemnitz í síðasta mánuði. Um sex þúsund stuðningsmenn Valkosts fyrir Þýskaland (AfD) og andíslömsku PEGIDA-hreyfingarinnar komu saman í borginni á laugardag eftir röð mótmæla gegn innflytjenda- og flóttamannastefnu Angelu Merkel kanslara í síðustu viku.
Þar sáust nýnasistar elta og áreita innflytjendur á götum úti, kasta flöskum, sprengja flugelda og heilsa að nasistasið, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Slíkar heilsur eru ólöglegar í Þýskalandi.
Um 65.000 manns komu saman á tónleikum til höfuðs útlendingaandúðar sem vinstrisinnaðir hópar héldu í Chemnitz í gærkvöldi.
Í nýrri skoðanakönnun mælist AfD með sautján prósent fylgi. Samkvæmt henni er hægriöfgaflokkurinn nú með einu prósentustigi meira fylgi en Sósíaldemókrataflokkurinn, samstarfsflokkur Kristilegra demókrata Merkel kanslara í ríkisstjórn.
AfD er nú þriðji stærsti flokkurinn á sambandsþingi Þýskalands og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Næstu stóru kosningarnar í Þýskalandi eru sambandsríkiskosningar í Bæjaralandi þar sem bandamenn Merkel eiga í vök að verjast gegn uppgangi AfD.
