Erlent

Læknaðist af versta tilfelli „ofurlekanda“ í sögu læknavísindanna

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Hefðbundin sýklalyf höfðu engin áhrif á líðan mannsins
Hefðbundin sýklalyf höfðu engin áhrif á líðan mannsins Vísir/EPA
Breskur karlmaður, sem glímdi við versta tilfelli lekanda í sögu læknavísindanna, hefur náð bata að sögn heilbrigðisyfirvalda. Sýkingin var svo skæð að talað er um „ofurlekanda“ í breskum fjölmiðlum. Hann viðurkenndi að hafa smitast af konu sem hann hitti á ferðalagi í Suðaustur-Asíu, þrátt fyrir að hann hafi verið í sambúð með konu í Englandi. Sambýliskona hans smitaðist ekki.

Maðurinn veiktist herfilega eftir að hann kom heim úr ferðalaginu og sýklalyf, sem venjulega vinna bug á sjúkdómnum, höfðu engin áhrif. Sama hvað læknar reyndu var það eins og að kasta vatni á gæs, þar til síðasta sýklalyfið sem þeir áttu eftir að prufa reyndist vel. Síðan fyrst var greint frá málinu í fjölmiðlum hafa tvö svipuð tilfelli komið upp í Ástralíu. Svo virðist sem um sé að ræða stökkbreytingu sem geri það að verkum að hefðbundin sýklalyf virka ekki. 

Læknar, sem meðhöndluðu manninn, segja að hann sé ákaflega heppinn að sleppa með skrekkinn. Þessi tilfelli veki hins vegar ugg og kalli á sterk viðbrögð heilbrigðisyfirvalda þar sem mikilvægt sé að koma í veg fyrir að þessi heiftarlegi ofurlekandi grasseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×