Innlent

Margverðlaunaðir lífeyrissjóðir ekki með bestu ávöxtunina

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Verdicta segir hófsama fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða skila betri ávöxtun en áhættumeiri. Sumir lífeyrissjóðir sem hafi auglýst að þeir hafi unnið til erlendra verðlauna hafi hins vegar ekki náð bestum árangri.

 

 Ráðgjafafyrirtækið Verdicta birti nýlega fyrirtækið niðurstöður greiningar á ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða þar sem fram kemur að langtímaávöxtun sameignarsjóða síðustu 20 ár er afar misjöfn eða frá um 1% til ríflega 6%.

 

Nú nýlega veitti fyrirtækið Söfnunarsjóði lífeyrissréttinda verðlaun fyrir bestu ávöxtun allra opinna sameignarsjóða hér á landi síðustu 20 ár eða um 5% ávöxtun. 

 

Hallgrímur Óskarsson framkvæmdastjóri Verdicta þess segir að hófsöm stefna sjóðsins hafi komið afar vel út.

 

„Þeir hafa fyrst og fremst fylgt íhaldsamari fjárfestingarstefnu. Það má segja að agressív stefna með mikilli áhættu sé ekki að koma vel út til lengri tíma. Þó að agressív stefna skili kannski góðum árangri í nokkur ár þá er lífeyrir landsmanna langhlaup og það á ekki að blanda honum í mikla áhættu,“ segir Hallgrímur. 

 

 Sigurbjörn Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda tekur undir þetta og segir að frekar hafi verið fjárfest í traustum skuldabréfum og á erlendum hlutabréfamarkaði en í innlendum hlutabréfum.

 

Lítið fjárfest á innlendum hlutabréfamarkaði

„Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda hefur ávallt verið varfærinn lífeyrissjóður og lagt áherslu á öryggi í fjárfestingum. Sjóðurinn hefur alla tíð komið mjög vel út þegar markaðir hafa verið erfiðir og þurfti til að mynda ekki að skerða réttindi eftir hrun. Við höfum lagt áherslu á að kaupa traust og góð skuldabréf sem hafa skilað mjög góðri ávöxtun en aðeins fjárfest að litlu leyti í innlendum hlutabréfum. Okkur finnst innlendi hlutabréfamarkaðurinn oft á tíðum of sveiflukenndur og erfiður til fjárfestinga og höfum frekar litið til erlendra hlutabréfa í fjárfestingum,“ segir Sigurbjörn.  

 

Fyrir hvað er verðlaunað?

Hallgrímur Óskarsson segir umhugsunarvert að sumir lífeyrissjóðir sem hafi auglýst að þeir hafi fengið verðlaun séu ekki meðal þeirra sem sýni bestu ávöxtunina. 

 

„Ég hef tekið eftir að sumir lífeyrissjóðir sem hafa fengið mörg verðlaun erlendis frá eru ekki með bestu ávöxtunina samkvæmt þessum niðurstöðum. Það er þá kannski verið að verðlauna fyrir aðra hluti en mitt mat er að langtíma ávöxtun skipti almenning mestu máli. Þá skiptir auðvitað miklu máli að fólk fái réttmætar upplýsingar um ávöxtun á lífeyri sínum,“ segir Hallgrímur. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×