Erlent

May um Brexit: "Annað hvort minn samningur eða enginn“

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May tók við embætti forsætisráðherra Bretlands árið 2016.
Theresa May tók við embætti forsætisráðherra Bretlands árið 2016. Vísir/Getty
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að breskir þingmenn standi frammi fyrir vali um að samþykkja Brexit-samning stjórnar hennar við ESB eða þá engan samning yfir höfuð.

May lét orðin falla í Panorama-þætti breska ríkisútvarpsins BBC. Í viðtalinu skaut May jafnframt á Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra stjórnar hennar, vegna gagnrýni hans á að ekki hafi náðst að semja um hvernig skuli haga málum á landamærum Írlands og Norður-Írlands eftir útgöngu.

Johnson lýsti málinu sem „stjórnskipulegu klúðri“. Áætlun May um landamærin að Írlandi fæli í sér að Bretland væri í raun áfram hluti af tollabandalaginu og innri markaðnum þar til að framkvæmdastjórn ESB væri á öðru máli.

May sagði að fari svo að breska þingið samþykki ekki áætlun hennar sem kennd er við sveitasetur hennar, Chequers, muni hinn kosturinn vera sá að enginn samningur náist milli Bretlands og ESB.

Bretar munu segja skilið við ESB þann 29. mars á næsta ári og á samningur milli ESB og Bretlands um viðskiptasamband þeirra og aðra þætti liggja fyrir í nóvember í síðasta lagi.


Tengdar fréttir

Tugir Íhaldsmanna sagðir tilbúnir að fara gegn Theresu May

Að minnsta kosti áttatíu þingmenn Íhaldsflokksins eru tilbúnir til þess að greiða atkvæði gegn frumvörpum ríkisstjórnar Íhaldsflokksins undir forsæti Ther­esu May um útgönguna úr Evrópusambandinu ef May lætur ekki af stefnu sinni um mjúka útgöngu í málaflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×