Innlent

Hvetur fólk til að klæðast íslenska þjóðbúningnum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Margrét Valdimarsdóttir er formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands
Margrét Valdimarsdóttir er formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands SKJÁSKOT ÚR FRÉTT
Þjóðbúningadagurinn var haldinn í Safnahúsinu í dag. Dagurinn er liður í því að hvetja landsmenn til að klæða sig oftar upp í Þjóðbúning, en formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands vill sjá fólk í þjóðbúningi við öll tilefni.

Heimilisiðnaðarfélag Íslands stóð fyrir viðburðinum sem var afar vel sóttur. Fólk var hvatt til að draga fram þjóðbúninga af öllu tagi, klæðast þeim, sýna sig og sjá aðra. Á staðnum voru sérfræðingar sem veittu gestum ráðgjöf og ráðleggingu um notkun búninganna. Formaður Heimilisiðnaðarfélagsins segir að fjölga þurfi tækifærunum til að klæðast þjóðbúningi.

„Við mættum vissulega vera duglegri að nota þjóðbúningana okkar. Við viljum með þessu styðja fólk í því að klæða sig upp en það eru mörg önnur lönd eins og Noregur sem eru svo miklu duglegri í að nota búningana. Þannig okkur langar að fjölga tækifærunum,“ sagði Margrét Valdimarsdóttir, formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands

Hún segir marga trega til að klæðast búningnum alla jafna, en hvenær er tilefni til að klæðast íslenska þjóðbúningnum?

„Hér á Íslandi er þetta aðallega þann 17. júni og 1. desember og fermingar og slíkt. En við myndum vilja sjá fólk nota búninginn miklu meira, að þetta væru kannski einu alvöru sparífötin og hann væri notaður við öll hátíðleg tilefni,“ sagði Margrét.

Að lokum gafst gestum kostur á stíga léttan dans undir stjórn Þjóðdansafélags Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×