Innlent

Gunnar Bragi hafði alla helgina til að skrifa minnihlutaálit

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir ekkert hæft í þeirri staðhæfingu Miðflokksmanna að málsmeðferð utanríkismálanefndar vegna þriðja orkupakkans hafi verið óboðleg. Logi hrósar formanni nefndarinnar fyrir fagleg vinnubrögð.

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis afgreiddi í dag álit vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra vegna þriðja orkupakkans. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu, atkvæði Miðflokksins og verður önnur umræða um tillöguna á Alþingi á morgun.

Miðflokkurinn sendi frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem segir að aðeins sé gefinn einn dagur til þess að leggja fram minnihlutaálit. Það sé óeðlilega skammur tími. Svo segir:

„Það má ljóst vera að ætlunin er að þröngva málinu í gegnum Alþingi á sem skemmstum tíma þrátt fyrir að málið valdi mörgum áhyggjum og mikil andstaða sé við það meðal þjóðarinnar.“

Á fundi utanríkismálanefndar á föstudag voru þingmenn í nefndinni upplýstir um að unnið yrði álit vegna þingsályktunartillögunnar sem yrði lagt fram í dag. Gunnar Bragi Sveinsson, fulltrúi Miðflokksins í utanríkismálanefnd, hafði því alla helgina til að vinna minnihlutaálit en gerði það ekki. Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð hafa skipst á að sitja fundi nefndarinnar að undanförnu. 

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd Alþingis. Vísir/Eyþór
Logi Einarsson formaður Samfylkinngarinnar og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd segir ekkert hæft í þeirri staðhæfingu að upplýsingagjöf til þingmanna í nefndinni hafi verið ábótavant. 

„Mér finnst formaður nefndarinnar, Áslaug Arna, hafa haldið alveg sérstaklega vel á þessu máli. Það voru allir upplýstir um það að þeir gætu sent inn beiðni um gesti og það voru margir fundir og margir gestir. Við höfum tekið langan tíma í þetta. Það var tilkynnt á föstudag að málið yrði tekið út á mánudag, það kæmi nefndarálit þá og síðan yrði málið tekið fljótlega á dagskrá. Þannig að ég get ekki séð að það sé neitt að þessum vinnubrögðum,“ segir Logi Einarsson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×