Erlent

Verða þriðju kosningarnar á innan við ári

Atli Ísleifsson skrifar
Benjamín Netanjahú hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ísraels frá árinu 2009. Áður gegndi hann embættinu á árunum 1996 til 1999.
Benjamín Netanjahú hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ísraels frá árinu 2009. Áður gegndi hann embættinu á árunum 1996 til 1999. Getty

Ísraelar munu kjósa sér nýtt þing í þriðja sinn á innan við ári. Þetta varð ljóst eftir að frestur þingmanna til að mynda nýja stjórn rann út í gær. Búist er við að ísraelskur þingheimur ákveði að nýjar þingkosningar fari fram í landinu þann 2. mars næstkomandi.

Bæði Benjamín Netanjahú forsætisráðherra og Benny Gantz, helsta andstæðingi hans, mistókst að mynda starfhæfan meirihluta eftir kosningarnar í september. Boðað var til þeirra kosninga eftir að ekki tókst að mynda stjórn eftir þingkosningarnar sem fram fóru í apríl síðastliðinn.

Gantz og flokkur hans, Bláa og hvíta bandalagið, tryggði sér 33 þingsæti af 120 í kosningunum í september, en Likud-flokkur Netanjahú 32 þingsæti. Margir flokkar eiga sæti á ísraelska þinginu en alls náðu tíu flokkar eða flokkabandalög þar sæti í síðustu kosningum.

Reuven Rivlin Ísraelsforseti hafði áður hvatt Netanjahú og Gantz til að sættast og mynda þjóðstjórn, en báðir höfnuðu þeir slíkum hugmyndum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×