Enski boltinn

Stjóri Gylfa lét Kólumbíu vita af meiðslum Mina en þeir hlustuðu ekki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Silva á hliðarlínunni í leik með Everton.
Silva á hliðarlínunni í leik með Everton. vísir/getty
Marco Silva, stjóri Everton, hafði varað forráðamenn Kólumbíu við það að Yerry Mina væri tæpur vegna meiðsla en hann meiddist á nýjan leik í landsleikjahléinu.

Mina meiddist illa aftan í læri í 2-1 sigri Kólumbíu á Suður Kóreu á þriðjudaginn en hann lék einnig í 1-0 sigri á Japan á föstudeginum á undan. Það reyndist vera of mikið.

Þessi 24 ára gamli varnarmaður hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni og gat Silva ekki gefið staðfestingu á hvenær hann kæmi til baka en sagðist viss um að Mina myndi spila áður en leiktíðin væri úti.

„Við vissum að það yrði áhætta að spila honum í báðum leikjunum. Það var eitthvað sem við létum þá vita að. Við getum ekki stjórnað því þetta er þeirra ákvörðun en við gáfum þeim ráð,“ sagði Silva.

„Það er alltaf áhætta að láta leikmann spila tvo leiki á stuttum tíma. Þeir ákváðu að gera það og því miður fyrir okkur og fyrir Yerry þá meiddist hann.“

„Meiðslin munu ekki vara út leiktíðina en við munum sjá til hversu lengi hann verður frá. Það er ekki rétti tímapunkturinn núna að segja hversu lengi hann verður fra en við vonumst til að sjá hann æfa og keppa sem fyrst í bláu treyjunni.“

Everton mætir West Ham um helgina í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×