Awad Ibn Ouf, varnarmálaráðherra Súdans, segir að forseta landsins, Omar al-Bashir, hafi verið komið frá völdum og hann handtekinn.
Ráðherrann sagði í sjónvarpsávarpi að her landsins muni fara með stjórn landsins næstu tvö árin og að þeim tíma loknum fari fram kosningar í landinu. Þá sé búið að lýsa yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu.
Fréttir tóku að spyrjast út um það í nótt að Bashir hafi verið komið frá völdum, en hann hefur stýrt landinu í þrjá áratugi.
Ouf sagði að Bashir yrði komið fyrir á „öruggum stað“ og lýsti hann því að landinu hafi við illa stjórnað og spilling verið mikil.
Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðan í desember og bárust fréttir af miklum fagnaðarlátum meðal mótmælenda í höfuðborginni Kartúm í morgun.
Mótmælin hófust eftir tilkynningu frá súdönskum stjórnvöldum um að verð á brauði myndi þrefaldast. Síðustu vikur tóku mótmælin svo að snúast um kröfu um afsögn hins þaulsetna forseta.
