Þetta er á meðal þess sem New York Times segir að komi fram í opinberum skattskjölum Trump fyrir tímabilið og blaðið hefur komist yfir. Skjölin eru ekki skattskýrslur hans sjálfar. Blaðið fékk upplýsingar úr þeim og tókst að finna tölur um Trump í yfirliti bandarísku skattstofunnar (IRS) yfir hátekjufólk sem stemmdu við þær.
Í ljós kemur að Trump tapaði meira en 250 milljónum dollara bæði árið 1990 og 1991. Hann virðist hafa verið sá einstaklingur sem tapaði mestu í Bandaríkjunum þau ár, tvöfalt meira en sá næsti á eftir honum.
Allt frá því í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar árið 2016 hefur Trump dregið upp mynd af sér sem sjálfsköpuðum auðjöfri sem hafi náðargáfu í viðskiptum og samningaviðræðum. Hann hefur á sama tíma staðfastlega neitað að birta skattskýrslur sínar þrátt fyrir áratugalanga hefð fyrir því að forsetaframbjóðendur geri það.
Um 143,5 milljarða króna tap á tíu árum
Fyrirtæki Trump, spilavíti, hótel og verslunarrými í íbúðarbyggingum, töpuðu tugum milljóna dollara árið 1985 og héldu áfram að skila tapi allt tímabilið. Í varð um 1,17 milljarða dollara tap á rekstri þeirra til 1994. Það er jafnvirði um 143,5 milljarða íslenskra króna.Tapið var svo mikið að Trump gat komist hjá því að greiða tekjuskatt öll árin nema tvö. New York Times segir ekki vitað hvort að skattstofan hafi krafið Trump um skattinn síðar eftir endurskoðun.
Lögmaður Trump segir að upplýsingarnar um fjármál forsetans sé „sannanlega rangar“. Umfjöllun blaðsins um skattskýrslur og fyrirtækjarekstur hans séu „afar ónákvæmar“ án þess þó að nefna dæmi um rangfærslur. Fullyrti hann að gögn IRS væru alræmd fyrir að vera ónákvæm og að þau gæfu ekki raunsanna mynd af fjármálum skattgreiðenda.
Fyrrverandi yfirmaður rannsókna, greiningar og tölfræði hjá IRS hafnar því og segir gagnagrunn skattayfirvalda þvert á móti afar áreiðanlegan. New York Times segir að heimildarmaður þess hafi geta veitt því upplýsingar um skattgreiðslur Fred Trump, föður forsetans. Þær upplýsingar stemmi nákvæmlega við raunverulegar skattskýrslur hans sem blaðið hefur áður komist yfir.
Deilt um skattskýrslur forsetans
Frétt New York Times birtist á sama tíma og fjárveitinganefnd Bandaríkjaþings krefst þess að fá skattskýrslur forsetans afhentar. Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, hafnaði beiðninni í gær þrátt fyrir að lög virðist kveða skýrt á um heimild nefndarinnar til að kalla eftir gögnunum. Ljóst þykir að málið eigi eftir að fara fyrir dómstóla.Þá hefur forsetinn höfðað mál gegn fjármálastofnunum sem hann hefur átt í viðskiptum við til að koma í veg fyrir að þær afhendi Bandaríkjaþingi gögn um fjármál hans.
Skjölin sem New York Times er með undir höndum eru ekki fyrir sama tímabil og það Bandaríkjaþing vill fá upplýsingar um. Tímabilið einkenndist af mikilli útþenslu viðskiptaveldis Trump og meiriháttar hruni. Forsetinn hefur kennt kreppu á 9. áratugnum um ófarir sínar þá.
Blaðið hefur áður fjallað ítarlega um fjármál Trump og fjölskyldu hans. Trump-fjölskyldan hafi beitt vafasömum brögðum til þess að færa auðæfi foreldra Trump forseta til hans og systkina hans án þess að þurfa að greiða erfðaskatt.
Sú umfjöllun sýndi fram á að, öfugt við þá ímynd sem Trump hefur sjálfur skapað um að hann hafi sjálfur byggt upp viðskiptaveldi, forsetinn hafi að miklu leyti erft auðæfi sín frá föður sínum.