Nýgengi örorku hér á landi hefur aukist jafnt og þétt í öllum aldurshópum á síðustu árum en á árinu 2016 var það í fyrsta sinn meira en fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi á föstudag skýrslu samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Þar er lagt til að greiðslur almannatrygginga skiptist í sjúkragreiðslur, endurhæfingargreiðslur, virknigreiðslur og örorkulífeyri auk þess sem tekin verða upp sveigjanleg hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.
Í skýrslunni segir: „Rannsóknir sýna að atvinnuþátttaka hefur jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan fólks, jafnvel þótt það sé að glíma við sjúkdóma, afleiðingar slysa eða fötlun og því mikilvægt að auka tækifæri fólks með skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku.“
Eitt af því sem hefur valdið bæði embættis- og stjórnmálamönnum heilabrotum er mikil fjölgun einstaklinga á 75 prósent örorku en öryrkjum fjölgar hlutfallslega mun hraðar hér en á hinum Norðurlöndunum.

„Það er alveg ljóst að við erum að sjá yngri einstaklinga, sérstaklega unga karla, koma mikið inn á örorkulífeyri. Mun meira en við sjáum í nágrannalöndum okkar og við sjáum mjög varhugaverða þróun hér því við erum úr takti við nágrannalönd okkar hvað varðar mikla fjölgun öryrkja á undanförnum árum. Það er ekkert vafamál og ég er sannfærður um að það er vegna meinlegra galla í núverandi kerfi sem er mjög mikilvægt að ráða bóta á,“ segir Þorsteinn.