Innlent

Grunaður um fíkniefnaframleiðslu í Grafarholti

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af manni í heimahúsi í Grafarholti á sjöunda tímanum í gær vegna gruns og vörslu og framleiðslu fíkniefna. Á heimilinu fannst ein planta og ætluð fíkniefni að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Í miðbæ Reykjavíkur var tilkynnt um mann með grjót að reyna að brjóta stóra rúðu í verslun á ellefta tímanum í gær. Maðurinn hafði svo hjólað í burtu en var handtekinn skömmu síðar við Lækjartorg. Maðurinn sinnti ekki boðum lögreglu varðandi stöðvun en hann ferðaðist á reiðhjóli, sem hann er grunaður um að hafa stolið. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu og er málið til rannsóknar.

Lögreglan hafði afskipti af fjórum þrettán ára drengjum í Hafnarfirði á áttunda tímanum þar sem þeir óku saman á einni vespu. Ökumaðurinn var sá eini sem var með hjálm en aðrir voru hjálmlausir. Lögregla hafði samband við foreldra drengjanna og tilkynntu málið til Barnaverndar.

Þá voru afskipti höfð af ökumönnum víða um borgina. Í Árbæ var bifreið stöðvuð í kringum níuleytið þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Fljótlega eftir miðnætti var svo annar ökumaður stöðvaður í miðbæ Reykjavíkur og reyndist sá vera réttindalaus og hafði ítrekað keyrt eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum.

Þá var þriðji ökumaðurinn stöðvaður skömmu fyrir klukkan eitt í nótt við Hafravatnsveg, réttindalaus og grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×