Sebastian Kurz og Íhaldsflokkur hans unnu góðan sigur í nýafstöðnum þingkosningum í Austurríki. Fastlega er búist við því að hann verði forsætisráðherra á ný en möguleikum hans virðist hafa fækkað.
„Við túlkum þessi kosningaúrslit ekki á þann veg að við höfum umboð til að setjast í ríkisstjórn,“ sagði Harald Vilimsky, aðalritari Frelsisflokksins. Flokkurinn þyrfti að ná tengslum við grasrótina á ný og því markmiði yrði betur náð í stjórnarandstöðu. Herbert Kickl, þingflokksformaður flokksins, hefur einnig talað á svipuðum nótum.
Fastlega var búist við því að Kurz myndi reyna að mynda nýja stjórn með Frelsisflokknum, sem er hægi popúlískur flokkur. Flokkarnir tveir mynduðu saman stjórn þar til spillingarmál, kennt við Ibiza, kom upp fyrr á árinu. Þegar það kom upp sagði Heinz-Christian Strache, formaður Frelsisflokksins og varakanslari, af sér embætti og forystu flokksins. Talið var víst að Kurz myndi ná saman með nýjum formanni, Norbert Hofer, en nú eru blikur á lofti og valdajafnvægið orðið mjög bjagað.
Ef Kurz nær ekki að mynda stjórn með Frelsisflokknum er talið að hann leiti til hinna tveggja sigurvegara kosninganna, Græningjanna og NEOS, sem er frjálslyndur miðjuflokkur. Íhaldsflokkurinn og Græningjar gætu myndað tveggja flokka stjórn en talið er að Kurz vilji fá NEOS inn til að breikka stjórnina og hafa styrkari meirihluta. Ef Kurz næði að mynda slíka stjórn þyrfti hann að tóna verulega niður andstöðu sína við innflytjendur en hann og Frelsisflokkurinn hafa verið mjög samtaka í þeim málaflokki hingað til.
Höttur
Haukar