Fótbolti

Ronaldo játaði sekt sína og greiðir himinháa sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Getty/Oscar Gonzalez
Cristiano Ronaldo var í dag dæmdur sekur um stórfelld skattsvik og fékk Portúgalinn tveggja ára skilorðsbundinn dóm og risasekt.

Ronaldo mun borga næstum því 19 milljónir evra, 2,6 milljarða íslenska króna, í sekt fyrri að svíkjast undan spænska skattinum á árunum 2011 til 2014.





Cristiano Ronaldo var í réttarsalnum í um það bil 45 mínútur og sættist á samkomulag um að hann myndi greiða fyrrnefnda 2,6 milljarða krónu sekt.

Það vakti athygli að Cristiano Ronaldo mætti til réttarins á svörtum bíl, í svörtum jakka, í svörtum buxum, í svörtum rúllukragabol og með svört sólgleraugu. Ákveðið þema þarna í gangi hjá kappanum en það fylgdi þó sögunni að skórnir hans voru hvítir.

Málið tengist sölu og samningum með ímyndarétt Cristiana Ronaldo en Portúgalinn er sakaður um að hafa ekki greitt neina skatta af þeim á árunum 2011 til 2014 þegar hann var leikmaður Real Madrid. Upphæðin var sögð vera í kringum 14,8 milljónir evra sem Ronaldo sleppti að greiða.





Ronaldo var dæmdur sekur fyrir að hafa stofnað sérstök skúffufyrirtæki utan Spánar til að fela peninga sem hann fékk fyrir samninga sína tengdum vörumerkinu Cristiano Ronaldo.

Cristiano Ronaldo gæti á verið á leiðinni í réttarsal undir öðrum formerkjum því hin bandaríska Kathryn Mayorga hefur sakað hann um nauðgun á hótelherbergi í Las Vegas árið 2009.

Xabi Alonso mætti líka í réttarsalinn í dag vegna svipaðra ásakana en hann var sakaður um að fela um tvær milljónir evra fyrir spænska skattinum á árunum 2010 til 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×