Innlent

„Hættuspil“ að vera með ótryggða sjálfboðaliða í vinnu

Kristín Ólafsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa

Mörg dæmi eru um að fólk komi til landsins sem sjálfboðaliðar og sé svo látið vinna meira og við önnur störf en lagt var upp með. Þá hafa atvinnurekendur kvartað til ASÍ vegna þess að samkeppnisaðilar eru með sjálfboðaliða í vinnu.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að á hverju ári koma um 600 sjálfboðaliðar til starfa á Íslandi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar prófessora í félagsfræði við Háskóla Íslands sem greindu tvær alþjóðlegar heimasíður sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum.

Næstum öll störfin eru störf sem um gilda kjarasamningar en þriðjungur sjálfboðaliðanna starfa í störfum tengdum ferðaþjónustunni.

ASÍ fær nokkur slík mál inn á borð til sín á ári. Drífa Snædal segir að störfin séu ólögleg og að samtökin reyni að upplýsa fyrirtækin um það.

„Og við viljum reyna að upplýsa líka þá sem standa í þessu, að vera með sjálfboðaliða í vinnu, að þetta er hættuspil að vera með einhverja sem eru ótryggðir.“

sTÖÐ 2

Atvinnurekendur hafi leitað til ASÍ og kvartað undan því að samkeppnisaðilar séu að ráða sjálfboðaliða.

„Atvinnurekendum náttúrulega misbýður það þegar verið er að skekkja samkeppnisstöðuna og reka sín fyrirtæki án þess að þurfa að standa straum af launakostnaði.“

Í langflestum tilfellum er óskað eftir sjálfboðaliðum til starfa í sveitum, við heimilisverk og önnur sveitastörf. Aðrar algengar auglýsingar eru barnagæsla, dagvinna, þjónustustörf og við tungumálakennslu. Drífa segir að hluti sjálfboðaliðanna sem hingað koma séu að flýja atvinnuleysi í heimalandinu. Þá sé mikilvægt að brugðist verði við.

„Það þarf að sýna fram á á ferilskránni að það hafi verið unnið eitthvað. Þannig að það er ekki endilega fólk sem er að leita í ævintýramennsku heldur er þetta fólk sem vill gjarnan vinna og vill fá laun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×