Viðskipti erlent

Nýr sími Google inniheldur ratsjá

Samúel Karl Ólason skrifar
Símanum Pixel 4 fylgir stærri útgáfa, Pixel 4 XL, eins og gengur og gerist í dag. Þá innihalda símarnir litla ratsjá sem getur fylgst með handarhreyfingum notenda.
Símanum Pixel 4 fylgir stærri útgáfa, Pixel 4 XL, eins og gengur og gerist í dag. Þá innihalda símarnir litla ratsjá sem getur fylgst með handarhreyfingum notenda. AP/Jeff Chiu
Fyrirtækið Google kynnti í dag ný tæki og tól sem notendur munu geta nálgast á næstunni. Ný fartölva, nýr sími, heyrnartól og ýmislegt annað var til sýnis. Síminn Pixel 4 þykir hvað merkilegastur í fljótu bragði. Google segir umræddan síma innihalda þróuðustu myndavélatækni í farsímum í dag.

Símanum Pixel 4 fylgir stærri útgáfa, Pixel 4 XL, eins og gengur og gerist í dag. Þá innihalda símarnir litla ratsjá sem getur fylgst með handarhreyfingum notenda. Það er því hægt að nota símann án þess að snerta hann. Ratsjáin greinir einnig, samvkæmt Engadget, hvenær verið er að taka hann upp og hvenær á að kveikja á andlitsskanna símans, svo eitthvað sé nefnt.

Tvær myndavélar eru á bakhlið símans og eru þær báðar 16 megapixlar. Ein linsa er framan á símanum og er hún 12,2 megapixlar.

Á kynningu Google í dag sagði Marc Levoy, yfirmaður ljósmyndadeildar fyrirtækisins, frá því hvernig linsur þessar virkuðu í samblandi við algóriþma Google. Sýndi hann meðal annars góða mynd af Golden Gate brúnni í San Francisco áður en hann sýndi að myndin hefði verið tekin mun lengra frá brúnni en útlit var fyrir.



Sala símanna hefst þann 24. október.



Pixel Buds eru ný heyrnartól fyrirtækisins. Um er að ræða aðra kynslóð tækjanna eftir að sú fyrsta féll ekki í kramið hjá gagnrýnendum og notendum. Heyrnartólin eru alfarið þráðlaus og endast í um fimm tíma af hlustun en í sólarhring ef notast er við þráðlausa hleðslu. Þá segja forsvarsmenn Google að búið sé að laga snið heyrnartólanna eftir að einhverjir kvörtuðu yfir því að sárt væri að vera með gömlu heyrnartólin í eyrunum til langs tíma.

Þá veita heyrnartólin aðgang að Google Assistant og notendur geta sagt „Hey google“ eða „Ok google“ til að gefa forritinu skipanir.

Heyrnartólin hindra ekki utanaðkomandi hljóð en hávaðastig þess sem verið er að hlusta á hækkar og lækkar eftir því hve hátt utanaðkomandi hljóðið er.

Pixel Buds birtast í hillum verslana á næsta ári.



Meðal annars var einnig kynnt ný fartölva Google, Pixelbook Go. Fartölvur Google hafa lengi þótt í dýrari kantinum en sú nýja er eitthvað ódýrari og mun grunnútgáfa hennar kosta 649 dali. Hún er með 13,3 tommu snertiskjá og á rafhlaða tölvunnar að endast í tólf klukkustundir, samkvæmt Techcrunch.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×