Innlent

Milljarðakaup á verðlausu skuldabréfi ein ástæða húsleita

Gjaldeyrissjóður á vegum Glitnis keypti verðlaust skuldabréf af Saga Capital á rúman milljarð haustið 2008. Þetta er meðal þess sem liggur til grundvallar húsleitum og yfirheyrslum Sérstaks saksóknara í allan gærdag. Rannsakendur töldu að samningurinn væri falsaður til að láta líta út fyrir að hann hefði verið gerður fyrir hrun og sendu ábendingu um það til sérstaks saksóknara. Tölvupóstsamskipti sýna hins vegar að pósturinn var ekta og hefur sérstakur saksóknari því ekki rannsakað meint skjalafals.

Ráðist var í tæplega tuttugu húsleitir í gær vegna rannsóknar á fimm málum tengdum Glitni. Allir liðsmenn svokallaðrar sjömenningaklíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem stefnt hefur verið í New York, koma við sögu í félögum sem viðriðin eru hin meintu vafasömu viðskipti.

Enginn sjömenninganna var þó yfirheyrður í gær. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hyggjast starfsmenn Sérstaks saksóknara undirbyggja rannsókn sína betur með yfirheyrslum og gagnayfirlegu áður en stórlaxarnir verða kallaðir fyrir.

Lárus Welding ætlar, samkvæmt heimildum blaðsins, að koma frá London í yfirheyrslu á morgun. Jón Ásgeir sagði við Fréttablaðið í gær að hvorki hann né Ingibjörg Pálmadóttir kona hans hefðu verið boðuð í skýrslutöku.

Meðal staða sem leitað var á í gær er heimili Lárusar í Blönduhlíð - þar sem ekki var lagt hald á neitt að sögn Ragnars H. Hall, lögmanns hans - skrifstofa Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á 101 Hóteli, skrifstofa Pálma Haraldssonar í Reykjavík og skrifstofur Saga fjárfestingar­banka í Reykjavík og á Akureyri. Þá gerði lögreglan á Hvolsvelli eina húsleit vegna málsins.

Alls voru tíu manns yfirheyrðir í gær, einkum stjórnendur úr gamla Glitni og Saga fjárfestingarbanka. Meðal þeirra voru Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga fjárfestingarbanka, og Guðný Sigurðardóttir af lánasviði Glitnis. Sumir voru handteknir, þeirra á meðal Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri bankans, sem var sóttur á heimili sitt árla morguns.

Húsleitir og skýrslutökur stóðu enn yfir þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi. Ekki var þó farið fram á gæsluvarðhald eða farbann yfir neinum hinna yfirheyrðu í gær.




Tengdar fréttir

Grunur um hlutdeild Saga í meintum brotum Glitnis

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Fjárfestingarbanka, hefur réttarstöðu sakbornings í Glitnismálinu, en meðal þess sem liggur til grundvallar húsleitunum í gær er grunur um hlutdeild fyrirtækisins í meintum brotum Glitnis banka.

Keypti verðlaust bréf af Saga á yfir milljarð

Gjaldeyrissjóður Glitnis keypti verðlausa skuld af Saga Capital á yfir milljarð eftir hrun. Talið var að kaupsamningurinn hefði verið falsaður til að láta líta út fyrir að hann hefði verið gerður fyrir hrun en það reyndist ekki rétt. Forstjóri Saga segist ekki í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×