Innlent

Kornrækt og garðyrkja fá góða sumarbyrjun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ef fram fer sem horfir gætu kornbændur búist við góðri uppskeru í haust.
Ef fram fer sem horfir gætu kornbændur búist við góðri uppskeru í haust.
Eitthvert gróskumesta vor fyrir gróður á Íslandi um áratugi veldur því að bæði kornbændur og garðyrkjubændur í útirækt sjá fram á góðæri. Þá eru enn mikil snjóalög í fjöllum sem veit á gott fyrir bæði hálendisbeit og laxveiði í sumar.

Ólafur Dýrmundsson landnýtingarráðunautur hjá Bændasamtökum Ísland sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að vorið núna sé jafnvel það sú besta í hálfa öld. Gróður sé hálfum mánuði fyrr á ferðinni en í meðalári. Hann þakkar það góðri vætutíð í maímánuði og að lítið hafi verið um frostnætur. Ólafur segir að bæði garðyrkjumenn og kornbændur kætist:

Ólafur Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Kornið fer mjög vel af stað. Það hefur verið sáð töluvert miklu byggi og jafnvel hveiti, og það fer vel af stað, bæði sunnanlands og norðan. Ef svo heldur fram sem horfir geta menn sleppt sauðfé í úthaga fyrr heldur en venjulega gerist. Og ég veit að garðyrkjubændur sem eru að rækta úti, það fer vel af stað hjá þeim. Þannig að svona yfir línuna, þá lítur þetta mjög vel út,” segir Ólafur. 

Þá komi sér vel fyrir vatnsbúskap sumarsins að enn sé mikill snjór í fjöllum, svo sem fyrir laxveiði, beit á hálendinu og fyrir vatnsbúskap virkjana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×