Minnst 28 eru látin og fleiri særðust eftir loftárás á herskóla í Tripoli, höfuðborg Líbíu.
Yfirvöld í landinu telja líklegt að uppreisnarher á vegum hershöfðingjans Khalifa Haftar standi á bak við árásina.
Myndefni frá vettvangi árásarinnar sýnir lík þeirra sem létust liggja á víð og dreif um svæðið.
Ríkisstjórn Líbíu, sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna, hefur að undanförnu staðið í átökum við uppreisnarhópa Haftars, en þeir hafa aðsetur í austurhluta landsins, líkt og hershöfðinginn sjálfur.
„Loftárás á herskólann í Tripoli varð 28 manns að bana og særði tugi annarra,“ segir í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneyti landsins, sem BBC vísar í.
Mikið hefur verið um óstöðugleika og átök í Líbíu frá árinu 2011, þegar einræðisherrann Muammar Gaddafi var ráðinn af dögum. Síðan þá hefur geisað borgarastyrjöld í landinu, og engum tekist að taka fullkomlega völd yfir ríkinu.
Í apríl á síðasta ári gerðu sveitir Haftar árás á Tripoli, en það var liður í tilraun þeirra til að steypa núverandi ríkisstjórn af stóli.
Erlent