Tveir greindust með kórónuveiruna í landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli í gær en að auki reyndist sýni frá lögreglukonu jákvætt í gær. Þeir tveir sem reyndust jákvæðir í landamæraskimun fara í mótefnamælingu í dag en í öðru tilfellinu er líklega um gamla sýkingu að ræða. Virk smit á landinu eru nú átta talsins, samkvæmt tölum á covid.is. Síðasta sólarhringinn voru alls tekin sýni úr um 851 sem fór í gegnum flugvöllinn eftir að landamærin voru formlega opnuð. Þeir sem greindust með veiruna í landamæraskimuninni eru nú í einangrun en dvelja þó ekki í sóttvarnahúsinu á Rauðarárstíg, samkvæmt upplýsingum fréttastofa.
609 eru nú í sóttkví og þeim fjölgaði því um sex milli daga. Alls hafa nú 1815 smitast af veirunni á Íslandi frá upphafi faraldursins og 1797 náð bata. 65.101 sýni hafa verið tekin og 21.955 manns lokið sóttkví. Enginn liggur inni á sjúkrahúsi með veiruna.
Tveir þeirra átta sem nú eru í einangrun með veiruna hér á landi eru rúmenskir menn sem komu hingað til lands í byrjun júní. Þeir greindust með veiruna um helgina eftir að hafa verið handteknir í tengslum við þjófnað á Suðurlandi.