Það vakti athygli í kvöld að á meðan leik Manchester City og Burnely var flogið með borða yfir Etihad-leikvanginn sem stóð á „White Lives Matter Burnley“ en herferðin „Black Lives Matter“ hefur farið mikinn undanfarnar vikur.
Fyrir alla leiki ensku úrvaldsdeildarinnar um helgina fóru leikmenn beggja liða á hnén og sýndu rasisma rauða spjaldið. Atvikið í kvöld setti skugga á það en Burnley var fljótt að senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
„Burnley fordæmir harðlega þessa hegðun hjá þeim sem bera ábyrgð á flugvélinni og þessum móðgandi borða,“ segir í yfirlýsingu frá Burnley. „Þetta fólk er ekki velkomið aftur á Turf Moor. Við biðjum ensku úrvalsdeildina afsökunar, sem og Manchester City og þá sem standa að Black Lives Matter.“
Burnley bætti því við að þetta væri alls ekki það sem félagið stæði fyrir og að þeir munu vinna með yfirvöldum til að finna þá sem bera ábyrgð á þessu.
Ben Mee, fyrirliði Burnley, sagðist skammast sín fyrir borðann í viðtali eftir leikinn.