Útgjöld hins opinbera hér á landi til menningarmála árið 2018 námu 2,5 prósentum af heildarútgjöldum eða rúmlega 29 milljarðar króna. Á sama tíma var 0,5 prósentum heildarútgjalda varið til fjölmiðla. Hlutur menningar af heildarútgjöldum hins opinbera var í samanburði við önnur Evrópuríki þriðji hæstur á Íslandi.
Aðeins í Lettlandi og Ungverjalandi var hærri hlutdeild heildarútgjalda varið til menningarmála árið 2018, eða 2,7 og 2,8 prósentum. Hlutfallið á Íslandi var þó hærra en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu hvort sem horft er til útgjalda vegna menningar eða fjölmiðla. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Hlutdeild til menningarmála hefur haldist svipuð á Íslandi síðatliðin tíu ár, lægst var hún árið 2016 í 2,2 prósentum og hæst árið 2013 í 2,6 prósentum af heildarútgjöldum.
Árið 2018 var stærsti útgjaldaliður hins opinbera til menningarmála kaup á vörum og þjónustu og laun en samtals námu þessir liðir um 73 prósentum af heildarútgjöldum málaflokksins á árinu. Þar er meðal annars átt við kaupum á aðföngum og þjónustu sérfræðinga sem ekki eru á launaskrá en launaliðurinn nær til launagreiðslna til starfsfólks ríki og sveitarfélaga.
„Þess má geta að listamannalaun falla undir framleiðslustyrki í þessari sundurliðun en í þeim flokki er einnig að finna fjárveitingar í ýmsa menningarsjóði á vegum hins opinbera sem og til kynningarmiðstöðva skapandi greina (svo sem Kvikmyndamiðstöðvar Íslands). Þá nær fjárfesting yfir efnislegar eignir, t.d. yfir húsnæði, vélar og tæki og hugbúnað sem er notaður í meira en eitt ár,“ segir í grein Hagstofunnar.