Innlent

Vísbendingar um að hlaup sé hafið í Grímsvötnum

Sylvía Hall skrifar
Lögreglustöðvum í umdæminu hefur verið gert viðvart. 
Lögreglustöðvum í umdæminu hefur verið gert viðvart.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi fékk í gærkvöldi upplýsingar um að vísbendingar væru um að hlaup væri líklega hafið í Grímsvötnum. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu. GPS-mælar á svæðinu greini landris. 

Fundur stendur nú yfir með fulltrúum frá Veðurstofu Íslands, vísindamönnum og Almannavörnum. Björn Ingi Jónsson, verkefnisstjóri Almannavarna, vildi ekki tjá sig fyrr en að fundi loknum en búist er við að honum ljúki fyrir hádegi. 

Enginn viðbúnaður er hafinn vegna hlaupsins en sé það hafið mun taka talsverðan tíma fyrir það að ná til byggða. Búið er að gera lögreglustöðvum í umdæminu viðvart.

Grímsvötn er virk eldstöð staðsett undir Vatnajökli en síðast gaus þar árið 2011 stóru eldgosi. Gosin sem urðu árið 1998 og 2004 voru talsvert minni.

Í viðtali við fréttastofu fyrr í sumar sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur að ef hlaup yrði á næstu mánuðum ætti fólk að vera viðbúið eldgosi í kjölfarið. Jarðskjálftavirkni hefði aukist á þessu ári og merki væru um meiri jarðhita.

Sé hlaup hafið getur það framkallað gos þegar léttir af þaki kvikuhólfsins. Því væri nauðsynlegt að fylgjast vel með.

„Við verðum að hafa auga með því að það gæti komið gos í kjölfarið eða í lokin. Það er eitthvað sem við verðum að vera viðbúin að geti gerst,“ sagði Magnús Tumi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×