Innlent

Stúlkan sem lenti í snjóflóðinu flutt til Ísafjarðar með Þór

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þór er mættur á Flateyri.
Þór er mættur á Flateyri. Mynd/Landhelgisgæslan

Unglingsstúlkan sem lenti í snjóflóðinu sem féll á Flateyri seint í gærkvöldi verður flutt með varðskipinu Þór á Ísafjörð. Líðan hennar er eftir atvikum góð.

Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra í samtali við Vísi.

Alls féllu þrjú „mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum undir miðnætti, líkt og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. Tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón hefur orðið á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.



Helmingur verður eftir

Annað snjóflóðið sem féll við Flateyri seint í kvöld féll að hluta á hús í jaðri bæjarins. Þrír voru í húsinu, þar á meðal unglingsstúlka sem grafa þurfti út úr húsinu en hún slasaðist ekki alvarlega.

Hún verður flutt með varðskipinu Þór á Ísafjörð en varðskipið kom til hafnar á Flateyri eftir miðnætti með 35 manna hóp til að taka þátt í aðgerðum á svæðinu.

„Um það bil helmingur af hópnum, eitthvað um 18 manns verða eftir til að leysa af viðbragðsaðila á Flateyri svo menn fái hvíld,“ segir Rögnvaldur.

Gríðarmikið tjón varð í höfninni á Flateyri.Magnús einar

Áfallahjálp í boði þegar Þór snýr aftur

Hinn helmingurinn fylgir stúlkunni á Ísafjörð. Siglingin tekur um tvö til þrjá tíma en Þór mun snúa fljótlega aftur með mannskap sem opna mun fjöldahjálparstöð á Flateyri.

„Svo erum við að gera ráðstafanir með að opna mögulega fjöldahjálparstöð á Flateyri þar sem áfallahjálp og annað verður í boði. Það er verið að undirbúa það núna,“ segir Rögnvaldur.

Rögnvaldur er staddur í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð þar sem fjöldi manns styður við þá sem koma að störfum á Flateyri og Suðureyri.

Allir vegir að Flateyri og Suðureyri eru ófærir en á morgun verður athugað með hvort hægt verði að moka vegina til að auðvelda störf viðbragðsaðila og annarra sem koma að aðgerðum.

„Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um að ryðja vegi. Það er allt lokað núna, bæði vegna út af ófærð og snjóflóðahættu. Staðan verður tekin á því með morgni að opna en það verður ekki hægt jafnvel fyrr en birtir þegar snjóflóðavaktin getur tekið betur stöðuna.“


Tengdar fréttir

Flóðbylgjan skall á húsum og bílum á Suðureyri

Snjóflóðið sem féll úr hlíðinni við Súgandafjörð til móts við Suðureyri féll i sjóinn og varð til þess að flóðbylgja skall á bænum. Nokkuð tjón varð á húsum og bílum. Vösk sveit björgunarsveitarmanna stendur vaktina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×